138. löggjafarþing — 51. fundur,  18. des. 2009.

umhverfis- og auðlindaskattur.

257. mál
[18:32]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil benda á að nú hefur ríkisstjórnin gert samkomulag við stóriðjuna eða þá sem reka þau fyrirtæki um að taka einmitt lán í framtíðarskattgreiðslum þeirra. Hver er munurinn? Af hverju velur ríkisstjórnin að fara þá leið? Þar er náttúrlega verið að minnka þær tekjur sem koma í kassann í framtíðinni. Þetta er sambærilegur hlutur.

Í máli hv. þingmanns kom fram að best væri að greiða skatta sína á meðan maður er frískur og aflögufær. Það er að sjálfsögðu rétt. Það er gott að geta gert það meðan maður er vinnandi o.s.frv. en hvenær er of langt gengið í skattlagningunni og þá sérstaklega gagnvart heimilunum? Erum við ekki einfaldlega komin yfir þá línu? Það er alla vega komið yfir þá línu að mínu mati. Þess vegna vil ég, af því að ég veit að hv. þingmaður er víðsýnn og óhræddur við að taka áhættu, endilega fá hv. þingmann í lið með okkur sjálfstæðismönnum til þess (Forseti hringir.) að við fáum þetta frumvarp okkar um séreignarlífeyrissparnaðinn samþykkt hér á þingi.