138. löggjafarþing — 51. fundur,  18. des. 2009.

umhverfis- og auðlindaskattur.

257. mál
[18:36]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að menn hafi fyrst og fremst verið að beygja sig undir friðinn. Við höfum gert samkomulag við aðila á vinnumarkaði sem hafa síðan talað fyrir hönd sinna skjólstæðinga og lagt mjög ríka áherslu á að við breyttum okkar áherslum, sem við vorum tilbúnir að gera að einhverju leyti en alls ekki öllu leyti. Auðvitað er það svo um þessar tillögur að í stjórnarliðinu eru menn eflaust, ekkert síður en í stjórnarandstöðu, missáttir og misánægðir. Þetta er hins vegar niðurstaða sem við sameinumst um og styðjum og ég er bærilega sáttur við að styðja þessa niðurstöðu.

Síðan er það að sjálfsögðu svo í öllu þessu ferli, og gott er að hafa það í huga, að það kemur dagur eftir þennan dag og þá kann að vera ýmislegt í skattlagningu af okkar hálfu sem reynist misráðið. Þá er að breyta því og draga þar úr og hugsanlega má bæta í á öðrum sviðum eftir atvikum og því sem hagkvæmt þykir og sanngirni stendur til.