138. löggjafarþing — 51. fundur,  18. des. 2009.

umhverfis- og auðlindaskattur.

257. mál
[18:43]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Nei, ég veit að við erum ekki sammála um þetta hugtak, félagslegt réttlæti. Ég minnist þess að fyrstu árin sem ég tók þátt í umræðum á Alþingi um fjárlög og tekjuöflun var líka vík milli vina í þessum efnum og ég minnist þess að pallarnir fyrir ofan okkur voru iðulega þétt setnir. Það voru ekki stóreignamenn og það voru ekki fulltrúar stóriðjunnar. Nei, það var hinn hluti samfélagsins, sá hluti sem við erum að reyna að verja með áherslum okkar í sköttum og skipulagi velferðarþjónustunnar og hvernig við drögum þar úr útgjöldum.

Varðandi séreignarsparnaðinn benti ég einnig á, þótt ég blési þessa hugmynd alls ekki út af borðinu og minnti á að ég hefði stundum hugsað þessa hugsun sjálfur, ýmsa annmarka sem fylgja því að taka þennan skatt núna en ekki síðar þegar auknar skuldbindingar koma til með að hvíla á okkur m.a. af því að þjóðin er að eldast. Það verða hlutfallslega færri vinnandi og fleiri sem taka peninga út úr lífeyrissjóðunum. Það er því að mörgu að hyggja og hér áðan var hvatt til þess að við hlustuðum hvert á annað. Aðilar á vinnumarkaði, fulltrúar verkalýðshreyfingarinnar og fulltrúar lífeyrissjóðanna hafa varað mjög við þessari leið og þeir hafa líka bent á ýmsa tæknilega erfiðleika í því sambandi sem við getum við gott tækifæri tekið ágæta umræðu um. (Forseti hringir.) Ég legg áherslu á að í grundvallaratriðum (Forseti hringir.) slæ ég fyrir mitt leyti ekki þessa hugmynd út af borðinu þó að hún (Forseti hringir.) komi ekki til framkvæmda núna.