138. löggjafarþing — 51. fundur,  18. des. 2009.

umhverfis- og auðlindaskattur.

257. mál
[19:11]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Við erum að ræða í 2. umr. um frumvarp sem snertir svokallaða umhverfis- og auðlindaskatta. Menn greinir á í mikilli tímaþröng um hvort málið snertir virkilega auðlindaskatta. Ég er á þeirri skoðun að það geri það ekki. Þetta er hluti af fleiri frumvörpum sem ríkisstjórnin hefur lagt fram til skattahækkana á almenning og fyrirtæki í landinu.

Ég tel að þetta frumvarp, eins og svo mörg önnur, sé vanreifað, hafi komið vanbúið til þings allt of seint af hálfu ríkisstjórnarinnar. Verklagið hefur verið með ólíkindum. Ég tel að það hafi aldrei á hinum seinni árum verið staðið eins illa að lagasetningu. Það hafa margir umsagnaraðilar staðfest. Þetta verklag gengur ekki og hér er verið að setja klyfjar á íslenskan almenning og íslensk fyrirtæki sem ég efast um að þau geti staðið undir. Ekkert hefur verið hlustað á þær tillögur (Forseti hringir.) og þær hugmyndir sem við í stjórnarandstöðunni höfum (Forseti hringir.) haft til að koma til móts við skuldug heimili og fyrirtæki.