138. löggjafarþing — 52. fundur,  18. des. 2009.

umhverfis- og auðlindaskattur.

257. mál
[20:33]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Frú forseti. Ég vil nota þetta tækifæri í 3. umr. til að ræða aðeins þau orð og ummæli sem fallið hafa um eðli þessa frumvarps og þeirrar skattlagningar sem þetta frumvarp kallar á. Við fulltrúar Sjálfstæðisflokksins höfum farið yfir hversu hættulegt það er fyrir efnahagslífið að fara þá leið sem ríkisstjórnin leggur upp með, þ.e. að hækka skatta við þær aðstæður sem nú eru uppi í íslensku þjóðfélagi. Við höfum lagt áherslu á að við sem stjórnarandstöðuafl höfum lagt fram ítarlegar, útfærðar og útreiknaðar leiðir sem hægt er að fara til að mæta þeim halla sem er fyrirsjáanlegur á ríkissjóði. Það sem meira er, við höfum einnig lagt til niðurskurð á fjárlögum um 8 milljarða kr. umfram það sem ríkisstjórnin hyggst grípa til.

Þessar aðgerðir okkar sjálfstæðismanna eru tíundaðar, bæði í frumvarpsformi sem hér hefur verið lagt fram varðandi séreignarsjóðina og hins vegar í þingsályktunartillögu sem við sjálfstæðismenn fluttum þar sem farið var í gegnum þær efnahagsaðgerðir sem grípa þyrfti til ef sá árangur ætti að nást sem við verðum að ná í stjórn efnahagsmála. Enn á ný, frú forseti, er ástæða til þess að vara eindregið við því að skattahækkunarleiðin sé farin. Ég mundi skilja að menn færu þessa leið ef engin önnur úrræði væru í boði og menn segðu: Við verðum að skera niður útgjöld ríkissjóðs, það mun valda samdrætti í hagkerfinu en af því að við treystum okkur ekki til að ganga lengra í niðurskurði verðum við að hækka skatta. Ef sú staða væri uppi held ég að ég yrði sannarlega að fallast á slíka röksemdafærslu og segja að við yrðum að þola að kreppan yrði bæði dýpri og lengri en annars hefði orðið ef við hefðum átt einhverja aðra möguleika. En það hafa verið settir fram aðrir möguleikar. Þeim hefur verið lýst, bent hefur verið á aðrar leiðir og það er krafa okkar sjálfstæðismanna m.a. að ríkisstjórnin standi við þann stöðugleikasáttmála sem hún gerði við aðila vinnumarkaðarins. Hugmyndir okkar sjálfstæðismanna eru að við förum ákveðnar leiðir sem færar eru til að flýta fyrir því að leysa gjaldeyrishöftin og — sem auðvitað skiptir mjög miklu máli — að við tökum þær skattgreiðslur sem ríkið á svo sannarlega inni í séreignarsjóðunum til ríkisins og sveitarfélaganna núna þegar mest þörf er á, komum í veg fyrir skattahækkanir og bjóðum um leið ekki hættunni heim að hér verði bæði dýpri og erfiðari kreppa en ella hefði þurft að verða.

Svo ég víki aftur að því um hvað þetta frumvarp er þá verð ég að segja eins og er að það er eitthvað furðulegt við það, frú forseti, að hlýða á talsmenn ríkisstjórnarinnar halda því fram aftur og aftur án þess að rökstyðja mál sitt að hér sé um að ræða einhvers konar auðlindaskatt. Ég geri mér grein fyrir því að það kann að vera snjallt í áróðri að nota það hugtak og segja: Hér er um að ræða umhverfisskatta til að bæta umhverfið og réttlátan og skynsamlegan auðlindaskatt. Ég skil áróðursbrelluna en hún er bara brella vegna þess að allir sem hafa velt fyrir sér auðlindamálum, auðlindasköttum og á hverju sú hugmyndafræði byggir sjá að hér er ekki um að ræða slíka skattheimtu. Hér er um að ræða að sá sem kaupir rafmagn á að greiða skatt, ekkert öðruvísi en að sá sem kaupir bensín á bílinn sinn borgar skatt og engum manni dytti í hug að halda því fram að þar væri um að ræða auðlindaskatt.

Enn þá fyndnara er að fylgjast með þessari umræðu, frú forseti, þegar maður horfir framan í samfylkingarþingmenn, sem hér eru fáir en þó gengur einn fyrir framan pontuna, hv. þm. Róbert Marshall, þegar þeir segja að um sé að ræða auðlindaskatt. Ef það er rétt þá er mjög auðvelt að leysa helsta ágreiningsmál íslenskra stjórnmála sl. tvo áratugi eða jafnvel þrjá, sem snýr einmitt að umræðunni um auðlindagjald í sjávarútvegi. Þá er hægt að fara þá leið sem einmitt er bent á í nefndaráliti 1. minni hluta, þar sem bent er á að þetta sé jafngilt því að halda því fram að ef settur sé á einhvers konar skattur þegar menn selja fiskflök úti í búð sem kaupandinn að fiskflakinu greiðir, þá sé kominn auðlindaskattur. Má þá hvert mannsbarn sjá að allt þetta þref og þras um auðlindagjald í sjávarútvegi er auðvitað tóm markleysa. Ég verð að segja, frú forseti, að ég hlakka til þess að eiga orðastað við hv. þingmenn Samfylkingarinnar um auðlindagjald héðan í frá ef hv. þingmenn samþykkja að hér sé um auðlindagjald og auðlindaskatt að ræða. Það væri bragur að því að menn gerðu breytingar á þessu en það er orðið um seinan, reikna ég með. Hér erum við að klára 3. umr. um þetta mál og ég á svo sem ekki von á því að neinar tillögur komi fram þannig að þetta verður þá niðurstaðan.

Við lifum á það alvarlegum tímum og þau verkefni sem við erum að fást við eru það alvarleg að menn eiga að neita sér um að beita áróðursbrellum og nota hugtök sem eiga ekki við þegar við erum að fást við jafnalvarleg mál og skattheimtu við þessar aðstæður. Það er nógu þungbært fyrir þjóðina að þurfa að þola að borga þessa skatta þótt ekki sé reynt að plata hana um leið og telja henni trú um að þessir skattar séu tilkomnir út af einhverju allt öðru en þeir eru í raun og sanni. Það væri meiri bragur að því, frú forseti, að ríkisstjórnin segði frá því kinnroðalaust hvað hún er að gera, að hún sé að setja skatta á heitt vatn og rafmagn og skatta á bensín og olíu. Það er það sem verið er að fást við í þessu frumvarpi og við eigum að velta fyrir okkur hvort við þurfum þessa skatta, hvaða skattar þetta eru og hvernig best sé að loka gatinu í ríkissjóði.

Frú forseti. Ég tel að ef um það næðist góð sátt á næstu sólarhringum og við mundum ræða þessi mál út frá þeirri forsendu einni hvernig mestar líkur væru á því að við björguðum þjóðinni úr þeirri kreppu sem nú ríður yfir — ef menn ýttu burt öllum nöfnum á frumvörpum og öllum hugmyndum um flokka og spyrðu sig þeirrar spurningar heiðarlega: Hvaða leið er líklegust til þess að hjálpa okkur út? þá hljóta sanngjarnir menn að sjá að sú leið að fara í skattahækkanir við þessar aðstæður er í besta falli hættuleg. Þegar til er valkostur sem segir: Ríkið á nú þegar yfir 70 milljarða inni í séreignarsjóðunum — ekki inni í almenna lífeyrissjóðakerfinu, við eigum auðvitað miklu meiri peninga þar en við ætlum okkur ekki að hreyfa við því heldur að nota þessa milljarða sem við eigum inni í séreignarsjóðunum. Við ætlum að flýta framkvæmdum eins og við getum og ryðja úr vegi öllum hindrunum sem standa fyrir því að t.d. framkvæmdir í Helguvík geti hafist eins og ríkisstjórnin lofaði í sáttmála sem hún gerði við aðila vinnumarkaðarins. Ef við hefðum ekki gert það asnastrik að birta fjárlög í haust þar sem gert var ráð fyrir gríðarlegum skatti á allt rafmagn sem gerði það að verkum að fjárfestar erlendis sem horfðu á okkur Íslendinga og voru að velta fyrir sér fjárfestingum hér hrukku allir í kút, ef við hefðum komið verkefninu í Straumsvík af stað eins og til stóð þar sem vinnufúsar hendur biðu eftir því að fá að takast á við það verkefni, verktakar sem svo bráðvantar verkefni, ef það hefði farið af stað og við hefðum fengið til ríkisins skatttekjur vegna verkefna bæði í Helguvík og Straumsvík, ef við mundum skoða af fullri alvöru, yfirvegun og skynsemi að auka við bolfiskaflann eins og hægt er að gera án þess að stofna vexti stofnanna í neina hættu og ef við færum lífeyrissjóðaleiðina sem við sjálfstæðismenn höfum bent á, þ.e. séreignarsjóðsleiðina sem í engu skerðir hlut sjóðfélaganna en kallar til ríkisins það fjármagn sem ríkið geymir þar til að borga seinna meir, þá eigum við möguleika, frú forseti, á að vinna okkur úr þessari kreppu og koma í veg fyrir að kreppan sem nú ríður yfir Ísland verði þegar fram líða stundir kölluð kreppan mikla.

Ég minni á að þegar kreppan var í Bandaríkjunum árið 1929 — og ég hef minnst þess áður úr þessum ræðustól — var það auðvitað alvarlegt áfall en menn fóru ekki að tala um kreppuna miklu fyrr en menn stóðu frammi fyrir afleiðingum aðgerðanna sem bandarísk stjórnvöld gripu til, bæði á sviði ríkisfjármála og peningamálastjórnunar. Það er hörmulegt til þess að vita að þegar menn geta horft til baka og lært af því hvernig aðrar þjóðir hafa brugðist við og geta brugðist við slíkum áföllum þá skulum við á Íslandi neita okkur um að fara þær leiðir sem eru færar til að koma til móts við þann vanda sem er uppi í ríkisfjármálum þjóðarinnar og neita að ræða þær af einhverri alvöru heldur er það allt gert með upphrópunum og slagorðum. Þá er ekki annað hægt að segja en að ég tel, frú forseti, að við hv. þingmenn séum að bregðast skyldu okkar við þjóðina sem er sú að leita allra mögulegra leiða til að koma okkur út úr þessu. Það þykir mér alvarlegt.

Í þessu frumvarpi þar sem við ræðum um skatta á heitt vatn, raforku og svokallað kolefnisgjald hefur af hálfu minni hlutans, Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Hreyfingar, verið rakið hvaða afleiðingar þetta hefur á efnahagslífið. Þær afleiðingar eru m.a. að flutningskostnaður á landsbyggðinni mun hækka. Hvað þýðir það, frú forseti? Þau störf sem eru unnin eru í hættu vegna þess að með því að kostnaður hækkar, með því að ríkið tekur meira til sín, er auðvitað minna eftir hjá þeim sem reka fyrirtækin til að greiða laun, fjárfesta og reka fyrirtæki sín. Það eykur líkurnar á því að fólk missi vinnuna og í það minnsta eykur það ekki líkurnar á því að ný atvinnutækifæri verði til vegna þess að hærri flutningskostnaður dregur úr þeim möguleikum. Það sér hvert mannsbarn.

Hvert mannsbarn sér líka, frú forseti, að þegar við þurfum að borga hærra verð fyrir heita vatnið eigum við minna eftir í buddunni til að kaupa okkur í matinn, til að kaupa föt, þjónustu og vöru. Eftir því sem við höfum minna á milli handanna til að kaupa þessa hluti eru meiri líkur á því að störfunum fækki við þær aðstæður sem nú eru. Menn mega ekki gleyma því. Þess vegna er þetta svo alvarlegt mál og þess vegna er svo sorglegt að horfa yfir þingsalinn þar sem nú situr varla nokkur maður. Hér sitja tveir þingmenn Sjálfstæðisflokksins og í hliðarherbergi situr einn þingmaður frá Samfylkingu og einn frá Vinstri grænum. Við erum að ræða þessi alvarlegu mál — ég veit, frú forseti, að þetta er seint að kvöldi en það er svo alvarlegt að ráðast í skattahækkanir þegar heimilin í landinu standa frammi fyrir því að afborganir af húsnæðislánum, bílalánum og öðrum skuldum hafa rokið upp, bæði hjá þeim sem voru með lán í gjaldeyri og þeim sem eru með verðtryggð lán sem auðvitað er meginþorrinn. Það þýðir að minna er eftir í buddunni til að kaupa þá hluti sem ég lýsti áðan. Að ráðast í þetta þegar vinnan hefur dregist saman og launin hafa lækkað, þegar liggur fyrir valkostur, önnur leið til að leysa vandann — maður hlýtur að velta því fyrir sér hvort það geti verið, eins og ég hef reyndar heyrt frá sumum hv. þingmönnum ríkisstjórnarinnar, að menn hafi í raun og sanni hugsað sem svo að það væri skynsamlegt og rétt, burt séð frá öllu öðru, að hækka skatta af því að breyta þyrfti tekjuskiptingunni í þjóðfélaginu. Ég hef heyrt frá sumum hv. þingmönnum að það væri kominn tími á að skattar væru hækkaðir o.s.frv. Ég verð að segja, frú forseti, að það er einstaklega ábyrgðarlaust þegar menn tala með slíkum hætti.

Það væri líka ábyrgðarlaust að koma hingað og segja nei við skattahækkunum ef menn hefðu ekki aðrar leiðir til að benda á hvernig ætti að mæta hallanum á ríkissjóði af því að við vitum að það er stórt vandamál. Enginn getur komið í þennan ræðustól og sagst vera á móti sköttum við þessar aðstæður nema menn hafi valkost og geti boðið upp á hann. Það er sá valkostur sem liggur fyrir og upp á þann valkost bjóðum við sjálfstæðismenn. Við köllum enn og aftur eftir því að ríkisstjórnin ræði þennan valkost með opnum huga og við reynum að fara þá leið sem er líklegust til að leysa þann vanda sem við stöndum frammi fyrir en ekki að auka hann. Skattahækkanir við þessar aðstæður sem nú eru, frú forseti, munu auka þann vanda sem við er að etja.