138. löggjafarþing — 52. fundur,  18. des. 2009.

greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.

228. mál
[21:05]
Horfa

Frsm. viðskn. (Lilja Mósesdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir framhaldsnefndaráliti meiri hluta viðskiptanefndar um frumvarp til laga um breytingu á lögum um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.

Fram kom á fundi nefndarinnar að skýring hækkunar sem Lánasjóður sveitarfélaga hafði gert athugasemd við er sú að annars vegar er um að ræða hækkun stofns sem myndar fjárhæð eftirlitsgjalds og þessi stofn hefur hækkað hlutfallslega meira hjá sjóðnum en hjá öðrum eftirlitsskyldum aðilum. Með öðrum orðum hefur efnahagsreikningur sjóðsins vaxið meðan um minnkun er að ræða hjá öðrum lánastofnunum. Hins vegar eru samkvæmt frumvarpinu lögð til hærri álagningarhlutföll hvað snertir lánastofnanir vegna hækkaðs hlutfalls þeirra í verkefnum eftirlitsins.

Meiri hlutinn telur að ef endurskoða á það fyrirkomulag sem gildir um það hvar í flokki einstaka eftirlitsskyldir aðilar lenda þarfnist slíkt gaumgæfilegrar skoðunar. Ekki er heppilegt að undanskilja tiltekinn eftirlitsskyldan aðila þeirri álagningu sem á við um sambærilegar stofnanir án þess að huga að málum í stærra samhengi.

Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Undir framhaldsnefndarálitið rita Lilja Mósesdóttir, Magnús Orri Schram, Árni Þór Sigurðsson, Steinunn Valdís Óskarsdóttir, Eygló Harðardóttir, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir og Margrét Tryggvadóttir.