138. löggjafarþing — 52. fundur,  18. des. 2009.

fjármálafyrirtæki.

258. mál
[21:08]
Horfa

Frsm. viðskn. (Lilja Mósesdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir framhaldsnefndaráliti viðskiptanefndar um frumvarp til laga um breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki.

Við 2. umræðu var velt upp þeirri spurningu hvort ákvæði frumvarpsins væru afturvirk. Var með því átt við hvort með frumvarpinu væri hreyft við ákvæðum sem gilda um hversu langt aftur í tímann miðað við frestdag megi rifta ráðstöfunum.

Nefndin fékk á sinn fund Benedikt Bogason fyrir hönd réttarfarsnefndar til að ræða þessa spurningu.

Nefndin áréttar að með frumvarpinu er einungis lagt til að lengdur verði frestur til að höfða riftunarmál skv. 148. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. Þessi frestur er ekki liðinn nú þegar í tilfelli þeirra fjármálafyrirtækja sem nú eru í slitameðferð en upphafsfrestur hans miðast við lok kröfulýsingarfrests.

Hv. viðskiptanefnd leggur til að frumvarpið verði samþykkt.

Undir framhaldsnefndarálitið rita Lilja Mósesdóttir, Magnús Orri Schram, Guðlaugur Þór Þórðarson, Björn Valur Gíslason, Ragnheiður E. Árnadóttir og Margrét Tryggvadóttir.