138. löggjafarþing — 54. fundur,  19. des. 2009.

ráðstafanir í skattamálum.

239. mál
[12:12]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta efh.- og skattn. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Frú forseti. Hér erum við að ræða verulega miklar hækkanir á sköttum á almenning, hækka vísitölu, hækka lán, hækka framfærslu almennings og ég vil spyrja hv. þm. Helga Hjörvar, formann efnahags- og skattanefndar, hvort ekki hefði verið skynsamlegra í þessari stöðu að fara yfir á hugmynd sjálfstæðismanna um að skattleggja séreignarsparnaðinn, sem hefði getað frestað öllum þessum skattahækkunum í heilt ár og auk þess getað aukið afgang hjá ríkissjóði töluvert mikið, sparað honum vaxtagjöld og sitthvað fleira. Það hefði í rauninni ekki komið á neinn máta við hvorki starfsemi séreignarsjóðanna né sjóðfélaga þeirra þar sem eingöngu er um það að ræða að ríkið tekur til sín skattalega eign sem það á í sjóðunum og notar hana í þessu tilliti núna þegar mest á reynir að viðhalda krafti og þrótti í atvinnulífinu eins og mögulegt er en ráðast ekki á það að ósekju þegar það liggur illa við höggi. Sama á við um heimilin, þau eiga mjög erfitt með að greiða hærri skatta í núverandi stöðu en eftir ár eða svo geta þau það örugglega. Skattahugmyndir sjálfstæðismanna hefðu leyst þetta allt saman og hefðu getað sparað mönnum allar þessar skattahækkanir sem menn eru að fara út í og gefið ríkissjóði auk þess meiri afgang að ég tali ekki um sveitarfélögin sem líka hefðu fengið 40 milljarða með þeim hætti.