138. löggjafarþing — 54. fundur,  19. des. 2009.

ráðstafanir í skattamálum.

239. mál
[12:17]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta er mjög athyglisverð umræða sem hér fer fram og ekki síst í andsvörum þar sem fram kemur í máli hv. þm. Helga Hjörvars að það sé meiningin hjá ríkisstjórninni að reyna að hlífa almenningi.

Mig langar því að spyrja aðeins út í þær hækkanir sem felast í þessu frumvarpi sem eru á bensíngjaldi 4%, á olíugjaldi 3% og á bifreiðagjaldi 10%. Þessar hækkanir sem og aðrar sem hafa verið gerðar á þessum gjöldum að undanförnu ásamt því frumvarpi sem samþykkt var áðan um umhverfis- og auðlindaskatt, koma ekki síst niður á heimilum landsins vegna þess að þar fer fram notkun á bifreiðum, heimilin eru vissulega með slík tæki í sinni umsjá og notkun, og ekki síst leggst þetta þungt á landsbyggðina. Þess vegna skýtur svolítið skökku við að segja að það sé stefnan hjá ríkisstjórninni að reyna að hlífa heimilum landsins að einhverju leyti í þessu skattahækkunarprógrammi. Ég get bara ekki séð þess stað, því miður. Og þá langar mig kannski að fá það aðeins skýrar fram hjá hv. þingmanni hvar nákvæmlega maður sér þess stað í skattahækkunarstefnu ríkisstjórnarinnar vegna þess að ég kem ekki auga á það og ég get ekki ímyndað mér að þeir aðilar sem hafa farið t.d. inn á skattareikninn á netinu geti séð að það sé verið að hlífa þeim og heimilum þeirra eitthvað sérstaklega í hinu mikla skattahækkunarprógrammi ríkisstjórnarinnar.

Þess vegna spyr ég, af því að ýmsir hv. þingmenn stjórnarflokkanna, og þar á meðal sá ágæti hv. þm. Helgi Hjörvar, hafa tekið ágætlega í séreignarsparnaðarhugmynd Sjálfstæðisflokksins: Hefur hún verið skoðuð eitthvað sérstaklega af hálfu ríkisstjórnarflokkanna eða er henni einfaldlega hent út af borðinu af því að hún kemur frá sjálfstæðismönnum?