138. löggjafarþing — 54. fundur,  19. des. 2009.

ráðstafanir í skattamálum.

239. mál
[12:21]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Ég verð að fagna því að séreignarsparnaðarhugmynd okkar sjálfstæðismanna verður rædd áfram í efnahags- og skattanefnd og ég treysti því að það verði gert af fullum heilindum og fullri alvöru vegna þess að ég tel að þetta sé leiðin sem þurfi að fara. Það kom fram í umræðu í gær hjá hv. þm. Ögmundi Jónassyni að hann teldi að þetta gæti orðið neyðarráðstöfun sem grípa þyrfti til ef ástandið hér versnaði eitthvað. En það er einfaldlega þannig, frú forseti, að við erum í þeirri stöðu að við þurfum að fara þessa leið. Ég held að allir sem setjast yfir þetta af einhverri alvöru sjái það.

Þá langar mig að spyrja hv. þingmann hvort það hafi verið skoðað á borði ríkisstjórnarflokkanna hvaða áhrif þetta skattahækkanaprógramm komi til með að hafa á landsbyggðina sérstaklega.