138. löggjafarþing — 54. fundur,  19. des. 2009.

ráðstafanir í skattamálum.

239. mál
[12:23]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. framsögumanni Helga Hjörvar fyrir framsögu hans áðan. Hér er verið að leggja á skatta, leggja á gjöld og alltaf er það almenningur sem á að standa þar með opið veskið og greiða fyrir. Ég hef áhyggjur af þróun mála eins og kemur fram í frumvarpinu varðandi dómstólana, það er verið að hækka mikið alla þá flokka sem finna má í lögum nr. 88/1991, um aukatekjur ríkissjóðs, með síðari breytingum. Fram kom hjá ritara nefndarinnar að einstakir liðir væru að hækka um rúmlega 1.000%, verið er að hækka aðgengi að dómstólunum upp í 15 þúsund, nei upp í 50 þúsund. Það er verið að hefta aðgengi fólks að dómstólunum, það er stjórnarskrárbundinn réttur sem segir að allir skuli hafa aðgang að dómstólum óháð tekjum. Ég minni á að gjafsóknarákvæðið var mjög þrengt þannig að færri geta rekið mál sín fyrir dómstólum á gjafsóknarákvæði. Ég hef áhyggjur af þessu öllu saman.

Í frumvarpinu er líka að finna framlengingu á því að fólk geti tekið út séreignarsparnað sinn. Ríkisstjórnin vill ekki fara leið sjálfstæðismanna að innskatta séreignarsparnað strax en veitir samt fólki svigrúm til að taka hann út með þessum hætti og eyða þá sínum séreignarsparnaði og verður hann þá þar með aðfararhæfur lendi fólk í greiðsluerfiðleikum og gjaldþroti, en meginregla lífeyrissjóðakerfisins er að lífeyrisgreiðslur séu undanþegnar gjaldþrotum. Þetta er í takti við vinnu ríkisstjórnarinnar en ég hef svo sem enga beina (Forseti hringir.) spurningu til þingmannsins en vildi koma þessu að.