138. löggjafarþing — 54. fundur,  19. des. 2009.

ráðstafanir í skattamálum.

239. mál
[12:50]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef lokið við að lesa nefndarálit 1. minni hluta efnahags- og skattanefndar og er orðlaus yfir því að minni hlutinn skuli ekki koma auga á neitt jákvætt í þeim ráðstöfunum í skattamálum sem við ræðum í þingsal núna.

Ég vil tiltaka tvær jákvæðar tillögur sem meiri hlutinn gerir og jafnframt ríkisstjórnin, varðandi ráðstafanir í skattamálum. Þar er fyrst að taka að meiri hluti efnahags- og skattanefndar leggur til að það 14% virðisaukaskattþrep sem lagt er til í frumvarpinu verði ekki lagt á eða því hrint í framkvæmd heldur verði þess í stað virðisaukaskatturinn á þeim vörum sem eru í efsta flokki hækkaður úr 24,5% upp í 25,5%. Með öðrum orðum leggur meiri hlutinn til að virðisaukaskattur á vörum sem fólk getur betur verið án en t.d. matvæla, að slíkur skattur hækki fyrst og fremst en að matvælin, sem eru nauðsynjavörur, verði áfram í virðisaukaflokki þar sem er um að ræða 7% virðisaukaskatt.

Hin jákvæða breytingin sem verið er að leggja til í frumvarpi hæstv. fjármálaráðherra er að leyfa á áframhaldandi útgreiðslu séreignarlífeyrissparnaðar og á næstu 23 mánuðum getur fólk tekið út 1,5 milljón kr.

Mig langar því, frú forseti, til að spyrja 1. minni hluta efnahags- og skattanefndar hvort hann telji þessar tvær breytingar ekki jákvæð skref í ljósi þess að við erum að kljást við mjög mikinn halla á ríkisfjármálum sem þarf að fjármagna með öðru en lántöku.