138. löggjafarþing — 54. fundur,  19. des. 2009.

ráðstafanir í skattamálum.

239. mál
[14:21]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta efh.- og skattn. (Birkir Jón Jónsson) (F):

Frú forseti. Við ræðum frumvarp um ráðstafanir í skattamálum, en í því er mælt fyrir um miklar hækkanir á alls kyns gjöldum hins opinbera, breytingar á lögum um virðisaukaskatt, lögum um bifreiðagjald, lögum um gjald af áfengi og tóbaki, lögum um olíugjald, lögum um vörugjöld af ökutækjum, eldsneyti og fleira. Lögum um aukatekjur ríkissjóðs og lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

Það er með ólíkindum að hv. efnahags- og skattanefnd hafi einungis fengið fjórtán virka daga til að fara yfir þetta frumvarp og önnur frumvörp er snerta grundvallarbreytingar á íslenska tekjuskattskerfinu. Vinnulagið hefur verið með þeim hætti að við nefndarmenn höfum þurft að gera álit okkar á meðan á nefndarfundum hefur staðið, en þeir hafa oftar en ekki staðið frá hálfníu eða níu á morgnana til átta eða níu á kvöldin. Þetta vinnulag er hvorki bjóðandi Alþingi Íslendinga né íslenskum almenningi. Þetta mál er vanreifað og ef menn ætla sér í slíkar umfangsmiklar skattabreytingar, þá eiga menn að taka einhverja mánuði í að fara yfir þær breytingar og hvaða áhrif þær hafa á löggjöfina, en við höfum einungis haft hér örfáa daga. Ég sé að hv. þm. Pétur Blöndal gengur hér fram hjá, en hann hefur staðið dyggan vörð í nefndinni, mætt á fundi og sýnir engin þreytumerki, sem sýnir náttúrlega í hvers lags formi hv. þingmaður er.

Mig langar til að fara yfir nokkra efnisþætti málsins. Í fyrsta lagi gjaldahækkanir, sem í ljósi tímapressu eru mjög umfangsmiklar, og vegna þess hve ríkisstjórnin lagði frumvarpið seint fram fór nefndin ekki ítarlega yfir áhrif hækkananna. Sökum þessa hraða gafst einfaldlega ekki tími til að fara yfir einstakar gjaldahækkanir, jafnvel þótt verið væri að breyta 161 gjaldi af 176 í tekjuöflun ríkisins. Verið er að hækka einstaka gjaldaflokka um allt að 1.100%, en þetta hefur ekki verið skoðað í ljósi tímapressunnar. Það er miður að hv. efnahags- og skattanefnd skuli ekki hafa getað sinnt því hlutverki sem henni var falið vegna tímaskorts.

Mig langar til að ræða um áhrif frumvarpsins á heimilin, en þetta frumvarp hefur mjög óæskileg áhrif á stöðu þeirra.

Þriðji minni hluti telur ljóst að skattahækkanir stjórnvalda muni hafa, eins og ég sagði áður, mjög óæskileg áhrif á stöðu heimilanna sem mörg hver eru yfirskuldsett. Hagsmunasamtök heimilanna hafa bent á að verði allar skattbreytingar og gjaldahækkanir ríkisstjórnarinnar að veruleika muni skuldir heimilanna hækka um 11.900 millj. kr. Ofan á þessar 11.900 millj. kr. eiga síðan eftir að bætast verðbætur og vextir í framtíðinni, þannig að uppsöfnuð áhrif aðgerðanna fyrir heimilin eru álitin vera nærri því fimmtíu milljarðar kr. — fimmtíu þúsund milljónir. Í því samhengi má kannski nefna að vextir á ári af hinu svokallaða Icesave-samkomulagi, ef það verður samþykkt, eru um 43 milljarðar kr. Þessi hækkun á skuldum heimilanna er þvert á það sem heimilin þurfa á að halda, sem er og ætti að vera lækkun á höfuðstól skulda þannig að vandamálið verði viðráðanlegra en það er nú.

Við framsóknarmenn höfum á undangengnum mánuðum talað fyrir því að lækka höfuðstól skulda heimila og fyrirtækja vegna þess að svigrúm er fyrir slíkt í efnahagsreikningum bankanna. Ríkisstjórnin og fulltrúar meiri hlutans hér á þingi hafa haldið því fram að það væri lýðskrum að vera með slíkan málflutning. En hvað hefur komið á daginn? Forsvarsmenn bankanna kynna nú leiðir þar sem heimili geta lækkað höfuðstólinn vegna þess að svigrúm er í bönkunum til að gera slíkt. Þannig að málflutningur stjórnarinnar á undangengnum mánuðum hefur beðið algjört skipbrot í þessu máli líkt og svo mörgum öðrum.

Mig langar að ræða aðeins, frú forseti, um forgangsröðun ríkisstjórnarinnar.

Merkilegt er að sjá forgangsröðun stjórnvalda þegar kemur að skattlagningu á ýmsar atvinnugreinar. Álögur á hópferðabifreiðar munu þegar tillit er tekið til allra hækkana verða um 600 millj. kr. hærri en fyrir breytingar. 600 millj. kr. árleg hækkun á þessa tegund ferðaþjónustu. Málflutningur stjórnarliða um mikilvægi ferðaþjónustunnar er beinlínis hlægilegur þegar þessi áform liggja fyrir. Ef horft er til skattlagningar á stóriðju annars vegar og ferðaþjónustu hins vegar kemur fyrrnefnda atvinnugreinin mun betur út. Ekki er jafnræði í skattatillögum ríkisstjórnarinnar gagnvart þessum atvinnugreinum. Þá fer maður að velta fyrir sér málflutningi Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, sem hefur talað um ágæti ferðaþjónustunnar á undangengnum árum og talað stóriðjuna niður. Þær breytingar sem hér eru lagðar til eru þvert gegn stefnu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. En sá flokkur er orðinn mjög vanur því að koma málum í gegn á Alþingi Íslendinga þvert gegn eigin sannfæringu, enda er það svo að Vinstri grænir eru hvorki áberandi í þessari umræðu né mörgum öðrum. Þetta var málglaðasti flokkur lýðveldissögunnar, en nú heyrir það orðið til viðburða í þinginu ef þingmenn Vinstri grænna koma upp og ræða efnislega um mál. Enda er það svo að mörg þeirra eru algjörlega í andstöðu við stefnu flokksins.

Nú langar mig, frú forseti, í ljósi þess að ég fór hér aðeins yfir afskriftir á höfuðstól lána heimilanna, að spyrja hvort frú forseti geti gert hv. þm. Lilju Mósesdóttur, sem er varaformaður efnahags- og skattanefndar, viðvart um það að ég mundi gjarnan vilja hafa hana við þessa umræðu, vegna þess að ég hef ákveðnar spurningar fyrir talsmann Vinstri grænna í efnahags- og skattanefnd, sem snerta þetta mikilvæga mál.

Ég mun halda áfram á meðan þessari beiðni er komið til skila, vegna þess að það er mikilvægt að Vinstri grænir geri hreint fyrir sínum dyrum þegar kemur að grundvallarmálum og grundvallarhugsjónum í skattamálum. Það er ekki hægt að skila auðu í þeim efnum og ekki bjóðandi hér.

Ég ræddi hér um hópferðabifreiðarnar þar sem — nú sé ég að hv. þm. Lilja Mósesdóttir er mætt til umræðunnar og það verður fróðlegt að heyra hvað hún hefur fram að færa. Ég fór yfir það hér áðan að með öllum þessum gjöldum og skattahækkunum væri verið að leggja um 50 milljarða kr. á heimilin í landinu, heimilin sem eru, eins og hv. þm. Lilja Mósesdóttir hefur bent á, mörg hver yfirveðsett og yfirskuldsett. Á meðal þeirra sem hafa talað fyrir því að leiðrétta ætti höfuðstól lána þessara heimila eru þingmaðurinn Lilja Mósesdóttir, við þingmenn Framsóknarflokks og þingmenn Hreyfingarinnar og því væri mjög athyglisvert að heyra frá hv. þm. Lilju Mósesdóttur hvort hún telji að heimilin geti risið undir þessum auknu álögum.

Ég hef margsinnis spurt fjármálaráðherra hvort stjórnvöld hafi gert úttekt á því hvert greiðsluþol heimilanna væri með hliðsjón af öllum þessum hækkunum. Það hefur ekkert svar komið við því. Þannig að innlegg hv. þm. Lilju Mósesdóttur snertir þennan hluta málsins og er nauðsynlegt í þessari umræðu.

Til viðbótar við þá miklu álagningu og mismunun á skattlagningu atvinnugreinanna sem ferðaþjónustan verður því miður fyrir liggur gríðarleg hækkun í loftinu, hækkun Keflavíkurflugvallar á lendingargjöldum sem mun hafa veruleg áhrif á uppbyggingu og fjölgun ferðamanna á Íslandi til framtíðar. Þær tölur sem hafa heyrst, en eru reyndar óstaðfestar, eru að hækkun á lendingargjöldum verði jafnvel allt að 79%, sem mun hafa ófyrirséðar afleiðingar á starfsemi ferðaþjónustunnar í landinu. Kannski ekki ófyrirséðar, þetta mun hafa þær afleiðingar að ferðamenn verða ekki jafnmargir og ella, sem mun hafa þau áhrif á íslenska hagkerfið að eftirspurn mun dragast saman og störfum fækka. Það síðasta sem við þurfum á að halda í því árferði sem er hér í dag er að pakka í vörn.

Ég vil benda á það sem fulltrúar ferðaþjónustunnar sögðu á fundi efnahags- og skattanefndar um þann hugsunarhátt sem birtist gagnvart íslensku ferðaþjónustunni. Menn þurfa að hugsa sóknarlega og sækja fram fyrir hönd íslenskrar ferðaþjónustu, þannig að störfum á landinu fjölgi og við öflum enn meiri gjaldeyris. En það vantar sem fyrr alla heildaryfirsýn hjá hæstv. ríkisstjórn þegar kemur að sköttum og hvernig menn ætla að haga uppbyggingunni til framtíðar. Alla yfirsýn vantar, enda var þetta frumvarp unnið á mettíma og eins og ég hef sagt áður þá hafa skattafrumvörp ekki verið unnin jafnilla á Alþingi Íslendinga í marga áratugi og það er mikill ábyrgðarhluti hjá ríkisstjórninni og stjórnarflokkunum á Alþingi að standa þannig að málum.

Mig langar til að spyrja hv. þm. Lilju Mósesdóttur hvort henni þyki þessi vinnubrögð hér á Alþingi ásættanleg.

Mig langar til að ræða aðeins um umhverfisskatta og afsal loftslagsheimilda. Ég veit að sá forseti sem situr nú hér er mjög áhugasöm um það málefni, enda nýkomin af loftslagsráðstefnu í Kaupmannahöfn.

Hér er verið að setja á umhverfisskatta, sem er markmið ríkisstjórnarinnar, en hvað er gert um leið? Um leið eru íslensk stjórnvöld að afsala sér loftslagsheimildum með því að sækjast ekki eftir áframhaldandi undanþágu, sem hæstv. fyrrverandi umhverfisráðherra og núverandi hæstv. forseti, Siv Friðleifsdóttir, beitti sér af alefli fyrir á sínum tíma. Hver var málflutningur Samfylkingarinnar þegar þáverandi umhverfisráðherra beitti sér fyrir þessu undanþáguákvæði sem hafði mikil áhrif á uppbyggingu íslensks atvinnulífs til framtíðar? Hæstv. núverandi utanríkisráðherra sagði þá að þessi hugmynd ráðherrans yrði hlegin út af borðinu, það var nú ekkert annað, hlegin út af borðinu.

En hver var árangur þáverandi ríkisstjórnar? Jú, Kyoto-bókunin komst í gegn, en nú beitir núverandi stjórn sér fyrir því að Ísland fái ekki áframhaldandi undanþágur, sem ég fullyrði að leiði til þess að störfum fækki á Íslandi til framtíðar litið og íslenska þjóðin verði því lengur að ná sér upp úr þeim öldudal efnahagskreppunnar sem nú blasir við og vægast sagt er það verulegt áhyggjuefni. Verulegt áhyggjuefni. Nú þegar við þurfum að horfa til framtíðar af stórhug og í sóknarhug þá beita íslensk stjórnvöld þessari hugmyndafræði fyrir sig, rétt eins og árið væri 2007 og við gætum leyft okkur allt á sviði efnahagsmála. Nú er staðan ekki þannig.

Frú forseti. Mig langar til að ræða hér einn anga þessa frumvarps er snertir útgreiðslu séreignarsparnaðar.

Í ljósi margra afleitra ákvarðana ríkisstjórnarinnar í efnahags- og skattamálum, styður sá sem hér stendur það að almenningur geti tekið út séreignarsparnað sinn, allt að 1,5 millj. kr. Margar fjölskyldur geta því miður ekki framfleytt sér í núverandi árferði. Hærri skattar, hækkun á verðlagi, auknar afborganir og lægri laun eru meðal annars ástæða þess. Í ljósi þess hvernig hér er á málum haldið, verðum við að veita heimilunum það svigrúm að geta nálgast sparnað sinn þannig að margir eða sem flestir nái endum saman á erfiðum tímum.

Mig langar til að fara aðeins yfir hækkun á virðisaukaskatti. Við í efnahags- og skattanefnd fengum að vita í gærkvöldi að ríkisstjórnin hefði ákveðið að breyta í grundvallaratriðum hugmyndum sínum um virðisaukaskattskerfið. Til stóð að fjölga virðisaukaskattsþrepunum í fjögur, þ.e. sumar vörur yrðu í 0% flokki, aðrar í 7%, enn aðrar áttu að vera í 14%, sem er nýja skattstigið sem ríkisstjórnin leiddi inn og síðan var þetta margfræga skattstig sem hefur verið 24,5% á undangengnum árum. Í gærkvöldi, já, fyrir svona 18–19 klukkustundum, kynnti meiri hlutinn grundvallarbreytingu — og satt best að segja, frú forseti, þá þarf maður að passa sig að hlæja ekki að þessum vinnubrögðum — að fallið hefði verið frá 14% virðisaukaskattsþrepinu, en þess í stað ætti að hækka hæsta þrepið úr 24,5% í 25,5%. Við í meiri hlutanum fórum fram á það í gærkvöldi að fá að fara yfir hvaða áhrif þessar breytingar á skattkerfinu mundu hafa. Það var náttúrlega ekki orðið við því tímans vegna. Þannig að ekkert tillit hefur verið tekið til t.d. verðteygniáhrifa, þ.e. hvað það þýðir fyrir ríkissjóð að hækka virðisaukaskattsstigið úr 24,5% upp í 25,5%.

Nú spyr ég hv. þm. Lilju Mósesdóttur: Gefa stjórnarliðar sér það að hlutfallsleg innkoma af þessum skatti verði sú sama þrátt fyrir hækkunina? Vegna þess að fræðin í hagfræðinni eru nú einfaldlega með þeim hætti að með hækkandi sköttum minnkar eftirspurnin. Gera stjórnarliðar sér einhverja grein fyrir því hversu eftirspurnin muni minnka og þar af leiðandi tekjur af þessari breytingu?

Við vildum kalla til gesti á fund nefndarinnar, en fengum það ekki, og nú er það staðreynd að fyrir örfáum klukkustundum var lögð til grundvallarbreyting á skattkerfinu sem er hér til umræðu. Þessi vinnubrögð eru algjörlega óásættanleg.

Ég spyr hv. þm. Lilju Mósesdóttur enn og aftur hvort hún sé ánægð með þessi vinnubrögð og hvort þetta sé það sem koma skal hjá ríkisstjórninni.

Hér á eftir munum við ræða grundvallarbreytingar er snerta skattlagningu á einstaklinga og fyrirtæki. Vinnubrögðin hafa verið með svipuðum hætti í þeim efnum.

Við fengum fyrst í morgun kynningu á því hvaða breytingar meiri hlutinn ætlaði sér að gera á skattaumhverfi einstaklinga og fyrirtækja í landinu og umræðan um það mál verður væntanlega í kvöld. Þvílíkt og annað eins. Er þjóðinni einhver sómi sýndur með vinnubrögðum af þessu tagi? Ég segi nei og ég hafna þessum vinnubrögðum.

Ég hafna því að hér sé verið að draga í gegnum þingið grundvallarbreytingar á skattkerfinu á einungis nokkrum klukkustundum. Hvað hafa vinnubrögðin frá því hrunið átti sér stað kennt okkur þingmönnum? Greinilega ekki neitt. Greinilega ekki neitt, vegna þess að allt frá hruni hafa mörg frumvörp verið dregin hér í gegnum þingið í skjóli nætur. Á nokkrum mínútum eða klukkustundum hafa mjög stór frumvörp verið kýld í gegnum Alþingi Íslendinga. Hvaða afleiðingar hafa þau vinnubrögð haft? Þau hafa haft þær afleiðingar að Alþingi Íslendinga hefur gert mistök í lagasetningu. Ég held að allir séu sammála um það. (Gripið fram í: Nei.) Mörg dæmi eru um það sem hægt væri að fara hér yfir, en í ljósi þess að tími minn er af skornum skammti og ég á eftir að fara yfir frekari breytingar sem meiri hlutinn hefur lagt til gefst einfaldlega ekki tími til að fara yfir það. En ágætt væri að hafa kannski sérstaka umræðu um það hér í þinginu hvernig vinnulag alþingismanna hefur verið á undangengnum mánuðum, en það er eitthvað sem við verðum að breyta.

Frú forseti. Mig langar til að nefna og koma inn á þátt er snertir hækkun á dómstólagjöldum, sem ég er nú í grundvallaratriðum sammála, í ljósi þess að fyrir liggur að mikill fjöldi mála mun dælast inn í kerfið á næstu missirum og hækkun á þessum gjöldum getur leitt til þess að við getum staðið undir öflugu dómstólakerfi hér í þessu landi og þurfum þar af leiðandi ekki jafnmikla fjármuni úr vösum skattgreiðendanna til þeirrar starfsemi. En á móti kemur að um leið og menn hækka allverulega það gjald sem almenningur og lögaðilar þurfa að greiða til að geta sótt mál fyrir dómstólum, velti ég fyrir mér jafnræðinu, þ.e. hinum almenna Íslendingi sem hefur kannski ekki mikil fjárráð og aðgengi hans að dómstólum, þ.e. að höfða mál og vernda réttindi sín.

Samhliða þessum hækkunum, sem ég er sammála, er ekki lagt til að auka framlög til gjafsóknar, sem hefði þurft að eiga sér stað til að vernda jafnt aðgengi almennings, þannig að þeir sem á annað borð hafa ekki efni á því að sækja mál geti leitað gjafsóknar.

Nú sé ég að hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, fulltrúi jafnaðarmanna, er viðstödd þessa umræðu. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hún muni styðja breytingartillögu þess efnis að við aukum framlög til gjafsókna í ljósi þess að verið er að hækka svo mörg gjöld í kerfinu, þannig að þeir sem ekki hafa ráð á því að höfða mál geti leitað slíkra leiða. Það væri mjög áhugavert að heyra fulltrúa Samfylkingarinnar tjá sig um það mikilvæga mál.

Að lokum vil ég segja að sá málflutningur sem stjórnarflokkarnir, fulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna, hafa viðhaft á undanförnum mánuðum, að hér ríki norræn velferðarstjórn, eru ein þau mestu öfugmæli sem viðhöfð hafa verið um stefnu einstakra stjórnmálaflokka.

Fyrstu verk þessarar norrænu velferðarstjórnar hafa verið þau að skerða kjör aldraðra, öryrkja og námsmanna. Það stendur til að hækka álögur á marga af þessum hópum enn frekar. Skerða réttindi þeirra áfram á næsta ári og á sama tíma kallar ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna sig norræna velferðarstjórn. Þetta er fallegt orð, því er ekki að neita, en hverjar eru gjörðirnar? Hverjar eru staðreyndirnar? Þær eru ekki í anda norrænnar velferðarstjórnar, síður en svo. Ríkisstjórnin verður … (LMós: Þrepaskattur.) Þrepaskattur, segir hv. þingmaður.

Hvað þýðir það að innleiða þrepaskatt nú á síðasta korterinu fyrir áramót? Hvað þýðir það í útgjöldum fyrir hið opinbera? 200–300 millj. kr. af skattfé almennings sem hefðu getað nýst til þess að standa undir betri velferðarþjónustu, til að mynda á Landspítalanum eða í hinu félagslega velferðarkerfi. Hv. þm. Lilja Mósesdóttir þarf að heyra þetta, hún skrapp hér fram, að 200–300 millj. kr. mun það kosta af skattfé almennings, að innleiða þetta frábæra flækjustig sem vinstri flokkarnir eru að innleiða hér. Hver verður samfélagslegi kostnaðurinn af því að breyta skattaumhverfi fyrirtækja með svo snöggum hætti? Hver verður kynningarkostnaðurinn gagnvart almenningi vegna breytinganna?

Nei, frú forseti, hér er illa staðið að málum, mjög illa. Ég vil ekki útiloka einhverjar breytingar á skattkerfinu. Það hefði verið hægt að ná svipuðum árangri í tekjujöfnun með því að hækka persónuafsláttinn og hækka tekjuskattsprósentuna. Það hefði verið hægt að ná svipuðum árangri í þeim efnum. Ég hefði kosið að á sama tíma hefðu menn sest yfir þessi mál í samráði við fremstu sérfræðinga þjóðarinnar á sviði skattamála, gefið sér tíma a.m.k. fram á vorið, til þess — það væri nú ágætt ef ég væri einn með orðið hér í salnum, frú forseti. (Gripið fram í.)

(Forseti (SF): Forseti biður aðra þingmenn um að hafa hljóð í salnum.)

Ég held að tveir aðrir fundir séu í gangi hér í þessum litla sal.

Frú forseti. Allt þetta, allar álögur á heimilin og fyrirtækin, ræðum við hér í skugga Icesave-málsins. Það er verið að leggja 50–60 milljarða kr. í auknar álögur á heimilin og fyrirtækin, álögur sem við mörg hver höfum efasemdir um að þessir aðilar standi undir. Á sama tíma hvílir sá skuggi yfir Alþingi Íslendinga að við eigum eftir að afgreiða Icesave-samkomulagið, sem felur í sér að íslenska þjóðin mun á ári hverju þurfa að greiða 43 milljarða kr. í vaxtagjöld af þeim hrikalegu samningum sem Samfylkingin ber höfuðábyrgð á. Icesave-samningar urðu til á vakt Samfylkingarinnar. Samfylkingin talar hér eins og hún sé nýkomin í ríkisstjórn. Samfylkingin hafði viðskiptaráðuneytið. Samfylkingin skipaði stjórn Fjármálaeftirlitsins. Það var á tíma Samfylkingarinnar sem þessir reikningar sem íslenskur almenningur þarf að greiða hlóðust upp. Svo leyfa hv. þingmenn Samfylkingarinnar sér að tala um Sjálfstæðisflokkinn og Framsóknarflokkinn sem hrunflokkana (Gripið fram í.) þegar Samfylkingin ber höfuð- og meginábyrgð á því hvernig komið er í Icesave-málunum. Þegar kemur að lokaafgreiðslu þess máls mun Samfylkingin þurfa líkt og aðrir flokkar að gera hreint fyrir sínum dyrum. Það er óhreint mjöl í pokahorninu þar. Óhreint mjöl.

Ég hlakka til að eiga orðastað við hv. þm. Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur við 3. umræðu Icesave-samningsins en eins og hv. þm. Pétur Blöndal getur vottað, hefur ekki sést mikið af þingmönnum Samfylkingarinnar hér í þeirri umræðu (Gripið fram í.) og margir þeirra hafa ekki tjáð sig. Þrátt fyrir að sá stjórnmálaflokkur beri hvað mesta ábyrgð á þessu stærsta fjármálaklúðri lýðveldissögunnar. (Gripið fram í: Rétt.)

Nú kallar hv. þm. Sjálfstæðisflokksins að það sé rétt, en þá er ágætt að við munum það að Framsóknarflokkurinn á sína fortíð og Sjálfstæðisflokkurinn líka, við gerum okkur grein fyrir því. En að sitja undir því að þingmenn Samfylkingarinnar komi hér upp eins og einhverjir englar, aftur og aftur, og séu með spunaþræði frá einhverjum — hvað heita þeir nú? (Gripið fram í: Spunameistarar.) Spunameistarar er sagt. Á netinu er til eitthvað sem heitir Rauði þráðurinn sem er spunaþráður Samfylkingarinnar. Á dögunum þegar þessi umræða var í hámarki hér í þinginu og þingmenn Samfylkingarinnar tóku náttúrlega ekki til máls, kom það fram að félagsmönnum Samfylkingarinnar voru send þau skilaboð frá flokksskrifstofunni, að Samfylkingin bæri enga ábyrgð á hruninu. Samfylkingin bæri enga ábyrgð á Icesave-samningunum. Sjá ekki allir sannleikann í þessu máli? (Gripið fram í.) Sjá ekki allir sannleikann í þessu máli?

Ég nefni þetta hér, frú forseti, í lokaorðum mínum um skattafrumvarp ríkisstjórnarinnar, vegna þess að hér er verið að leggja á stórauknar álögur á heimilin og fyrirtækin, m.a. til að standa undir Icesave-samkomulaginu.

Að lokum vil ég segja í þessari umræðu að talsmenn minni hlutans í efnahags- og skattanefnd hafa bent á að mögulega mætti skattleggja inngreiðslur á séreignarsparnað til að minnka höggið eitthvað gagnvart heimilum og fyrirtækjum. Ég hefði jafnvel séð fyrir mér að ef þessi sparnaður yrði skattlagður gætum við farið í hógværari skattahækkanir á næsta ári, gert áætlun til þriggja ára þar sem við færum blandaða leið. Að við skattlegðum séreignarsparnaðinn og færum hóflegri skattlagningarleið en þá sem sjálfstæðismenn hafa nefnt í umræðunni, að hækka enga skatta á næsta ári, sem í raun og veru frestar bara vandanum um eitt, tvö ár. Ég hefði viljað gera einhverja slíka áætlun í samstarfi við stjórnarflokkana.

Það dapurlega í þessari umræðu er að það er ekkert hlustað á okkur, enginn vilji er til þess að eiga samstarf við stjórnarandstöðuna í fjárlagagerð eða þegar kemur að skattamálunum. Á meðan sveitarfélög hringinn í kringum landið vinna að fjárhagsáætlunum sínum þar sem meiri hlutinn og minni hlutinn hittast á öllum stigum málsins og koma sér oftar en ekki saman um það hvernig eigi að haga fjárhagsáætlun viðkomandi sveitarfélaga. Nei, vinnubrögðin hér á Alþingi eru sandkassaleikur þar sem stóri bróðir hlustar ekkert á litla bróður og fer sínu fram sama hvað tautar og raular. (Gripið fram í: Pabbi og mamma.)