138. löggjafarþing — 54. fundur,  19. des. 2009.

ráðstafanir í skattamálum.

239. mál
[14:56]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla að spyrja hv. þm. Birki Jón Jónsson hversu mikið hafi verið rætt um áhrif þessarar tekjuöflunar ríkissjóðs á skuldir heimilanna af því að komið hefur fram í fréttatilkynningu frá Hagsmunasamtökum heimilanna að þeir óbeinu skattar sem hér er verið að tala um munu hækka lánin um 13,4 milljarða strax við gildistöku og a.m.k. 42 milljarða til viðbótar á lánstíma lánanna. En þegar ég fletti nefndarálitinu frá meiri hlutanum, finn ég eina, nei, hálfa setningu þar sem minnst er á að um talsverða fjárhæð sé að ræða sem væri mjög íþyngjandi fyrir heimilin og fyrirtækin í landinu og hefði einnig áhrif til hækkunar vísitölu neysluverðs.

Var eitthvað um þetta fjallað? Var eitthvað fjallað um leiðir til að koma í veg fyrir þessa víxlverkun skattlagningar hjá ríkissjóði til að afla sér aukinna tekna og áhrif á lán heimilanna? Eins og hv. þingmaður fór mjög vandlega í gegnum í ræðu sinni er skuldastaða heimilanna (Forseti hringir.) á Íslandi mjög slæm. Ég hefði því mikinn áhuga á að heyra hvort þetta hafi verið rætt í nefndinni.