138. löggjafarþing — 54. fundur,  19. des. 2009.

ráðstafanir í skattamálum.

239. mál
[14:57]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta efh.- og skattn. (Birkir Jón Jónsson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Eins og ég fór yfir í ræðu minni var lítill tími til stefnu. Hv. formaður nefndarinnar, Helgi Hjörvar, á alla mína samúð að hafa þurft að halda utan um umfangsmikið starf sem átti einungis að taka nokkra daga í meðförum þingsins. Ég vona að vinnubrögð sem þessi muni aldrei endurtaka sig er snerta grundvallarbreytingar á skattkerfi ríkisins. Þess vegna gafst okkur ekki tími til að ljúka umræðu um áhrifin sem þetta mundi hafa á heimilin og hvort hægt væri að takmarka þessi neikvæðu áhrif.

En ég vil upplýsa að hv. þm. Eygló Harðardóttir hefur verið með þingmál sem mun verða skoðað og um það er samkomulag, þ.e. að verðtryggingin verði tekin til sérstakrar skoðunar í viðskiptanefnd eftir mikla baráttu hv. þingmanns. Það er mikið hagsmunamál að þetta verði skoðað, þau hrikalegu áhrif sem hækkun á sköttum og gjöldum hafa á skuldir heimilanna. Ég ber miklar væntingar til þess að viðskiptanefnd muni skila (Forseti hringir.) góðum árangri af því starfi.