138. löggjafarþing — 54. fundur,  19. des. 2009.

ráðstafanir í skattamálum.

239. mál
[15:05]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Birki Jóni Jónssyni fyrir skelegga ræðu þar sem hann dró upp ýmsar athyglisverðar staðreyndir. En mig langaði að spyrja hv. þingmann aðeins út í heildarsýn ríkisstjórnarflokkanna á það hvernig eigi að koma okkur út úr kreppunni. Ég hef gagnrýnt ríkisstjórnina fyrir það að vera ekki með slíka sýn, en svo virðist sem sýn þeirra felist aðeins í því að stórhækka skatta, að það séu einu hugmyndirnar sem þeir flokkar hafi um það hvernig stjórna eigi landinu og koma okkur út úr kreppunni.

Það er athyglisverð umfjöllun um einmitt þetta mál í leiðara Morgunblaðsins í dag þar sem er vísað í ýmsar efnahagsrannsóknir og dregin sú ályktun að aðgerðir af þessu tagi hafi sýnt það í gegnum tíðina og í sögunni að þær séu til þess fallnar að auka á kreppu og framlengja hana. Hefur hv. þingmaður myndað sér skoðun á þessu atriði og meintri heildarsýn ríkisstjórnarflokkanna í því hvernig koma eigi okkur út úr kreppunni?