138. löggjafarþing — 54. fundur,  19. des. 2009.

ráðstafanir í skattamálum.

239. mál
[15:09]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta efh.- og skattn. (Birkir Jón Jónsson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Framsóknarmenn og sjálfstæðismenn eru ekki sammála þegar kemur að skattamálum. Ég hef einfaldlega ekki fengið botn í hvernig það á að ganga upp að ekki megi hækka eina eða neina skatta á næsta ári, hvorki á fyrirtæki né almenning. Hvað þýðir það ef menn ætla ekki að gera það og nota allan séreignarsparnaðinn til að forðast skattlagningu? Það verður þá væntanlega meira högg á öðru og þriðja árinu. Það verður að hækka skatta á heimilin og fyrirtækin til að auka tekjur ríkissjóðs. Við framsóknarmenn höfum talað fyrir hófsömum og raunsönnum breytingum í þessu. Það verður að fara blandaða leið hvað þetta varðar, bæði með meiri tekjuöflun, með því að auka veltuna í samfélaginu, með því að styrkja atvinnulífið, og líka með hóflegum skattaálögum. Þar skilur kannski á milli framsóknarmanna og Sjálfstæðisflokksins og framsóknarmanna og ríkisstjórnarinnar. En því miður hefur lítið verið hlustað á það sem við höfum lagt til málanna af hálfu ríkisstjórnarinnar.