138. löggjafarþing — 54. fundur,  19. des. 2009.

ráðstafanir í skattamálum.

239. mál
[15:35]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og hv. þingmaður nefndi komast menn ekki á alla nefndarfundi. Við erum nú saman, ég og hv. þingmaður, í hv. viðskiptanefnd og þó svo að ég haldi að bæði ég og hv. þingmaður séum með afskaplega góða mætingu yfir heildina hefur það komið fyrir hv. þm. Eygló Harðardóttur að geta ekki mætt á fundi. Það hefur komið upp eins og gengur.

Varðandi verðtrygginguna lít ég svo á að verkefnið sé að lækka greiðslubyrði almennings. Mér hefur oft fundist menn tala eins og verðtrygging sé orsökin. Verðtryggingin er ekki orsök heldur afleiðing. Hins vegar væri æskilegt að við þyrftum ekki að hafa verðtryggingu hér á landi. Það væri æskilegt ef umhverfi okkar væri með þeim hætti að við þyrftum ekki að vera með þessa svokölluðu verðtryggingu en grunnurinn er hins vegar verðbólgan, að við munum þurfa að borga hærri vexti en við viljum ef hér er há verðbólga. Síðan eru auðvitað margir fletir á þessu máli. Þetta tengist — (Gripið fram í: Borgum við það ekki hvort sem er í gegnum verðbæturnar?) peningastefnan er náttúrlega einn þátturinn í þessu. Þetta er grundvallarmál sem við þurfum að skoða.

Ég lít hins vegar svo á að þessi mál geti ekki beðið. Mér er nákvæmlega sama hvaðan hugmyndirnar koma. Ég veit ekkert hver átti hugmyndina að niðurfellingu höfuðstóls lána. Ef hún er góð og framkvæmanleg eigum við að fara hana. Ef einhver annar er með góða hugmynd er ég tilbúinn að styðja hana. Þetta á að vera vinna okkar, þ.e. að (Forseti hringir.) hugsa um hagsmuni heimilanna og almennings í landinu en ekki eyða tímanum í einhverja vitleysu.