138. löggjafarþing — 54. fundur,  19. des. 2009.

ráðstafanir í skattamálum.

239. mál
[15:39]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Svo við höldum nú tölunum til haga eru einskiptisskatttekjurnar af séreignarlífeyrissparnaðinum um 70 milljarðar kr. Skattahækkanirnar á þessu ári eru núna 40–50 milljarðar, síðan fáum við á hverju ári af séreignarlífeyrissparnaðinum um 7 milljarða þannig að við förum hátt í að dekka næstu tvö ár með þessari einskiptisaðgerð.

Ég vek athygli á því að hv. þingmaður er í Samfylkingunni og það er athyglisvert að hann gekkst við því. Hér eru vitni að því að hann gekkst við því að hafa verið í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum 2007–2009. Hann gekkst líka við því, virðulegi forseti, að hafa lækkað skatta. Þetta er söguleg stund á Alþingi Íslendinga. Það fannst hv. þingmaður Samfylkingarinnar sem var í þessari ríkisstjórn en af ástæðu bað ég um opinbera rannsókn á því hverjir voru með okkur í ríkisstjórn á þeim tíma.

Einhverra hluta vegna tala spunameistarar Samfylkingarinnar nú mikið um að það hafi verið gríðarleg mistök að lækka skatta og einfalda skattkerfið á undanförnum árum en Samfylkingin barðist ekki gegn því. Hún gekk ekki til kjósenda og sagði: Við þurfum að hækka skattana. Það er bara ekki þannig. Ekki þegar þau voru í stjórnarandstöðu og síðan tóku þau þátt í þessu með okkur í stjórn. Ég man ekki eftir því að þau hafi verið rifin á hárinu inn í þingsal til að ganga í það verk. Það fór fram hjá mér. Vinstri menn hækka skatta af því að þá langar til þess. Ef vilji þeirra stæði til annars gerðu þeir þetta öðruvísi. Þeir neita að gangast við því að skattkerfið er stighækkandi eins og það er. Það þýðir að því hærri tekjur sem menn hafa, því hærra hlutfall greiða þeir í skatta. Ég vil spyrja hv. (Forseti hringir.) þingmann, af því hann gengst nú við ýmsu sem hv. þingmenn Samfylkingarinnar hafa ekki gengist við, hvort hann vilji gangast við því að við séum með stighækkandi (Forseti hringir.) tekjuskatt?