138. löggjafarþing — 54. fundur,  19. des. 2009.

ráðstafanir í skattamálum.

239. mál
[15:54]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Við erum að ræða frumvarp til laga um ráðstafanir í skattamálum, virðisaukaskatt og fleira. Þetta er frekar villandi heiti á frumvarpinu því það er svo mikið sem liggur hér undir, t.d. breytingar á lögum um olíugjald og kílómetragjald sem fer strax út í verðlagið og það á að hækka enn frekar, breyting á lögum um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti og fleira. Það er breyting á lögum um bifreiðagjald. Það er breyting á lögum um gjald á áfengi og tóbaki. Aftur er verið að hækka þann lið um bensínið og olíuna. Breyting á lögum um stimpilgjald. Svo er það virðisaukaskatturinn, við vitum nú hvernig fór með virðisaukaskattinn. Ríkisstjórnin virðist vinna málin svolítið þannig að komið er með hótanir um skattheimtu, það sett út í samfélagið, það látið koma í fréttir, frumvarp jafnvel skrifað, eins og gert hefur verið, að ýmsum breytingum en síðan er það allt saman dregið til baka í ljósi þess að þjóðfélagið sættir sig betur við breytingar, samanber það sem gerðist í gærkvöldi, undir nótt má segja, að skyndilega sneri ríkisstjórnin við úr þriggja þrepa virðisaukaskattskerfi og fór aftur í tveggja þrepa virðisaukaskattskerfi og hækkaði efri mörkin.

Ég tek það líka til rökstuðnings þegar var búið að hóta því að taka af einn mánuð í fæðingarorlofi. Flestir vita að Samfylkingin stjórnast mikið af skoðanakönnunum og Samfylkingin áttaði sig á því að það mál fékk mikla andstöðu í þjóðfélaginu og dró það til baka. Þetta eru dæmi um hvað við þingmenn þurfum að sætta okkur við frá ríkisstjórninni, þessi óvönduðu vinnubrögð og þá upplausn sem virðist vera innan stjórnarinnar. Hægri höndin veit ekki hvað sú vinstri gerir. Þetta megum við láta yfir okkur ganga. Hér eru kvöldfundir og næturfundir, allt út af því að svo mikil óstjórn og upplausn er hjá ríkisstjórninni.

Það var nú svo sem ekki við öðru að búast. Ríkisstjórn þessara flokka var náttúrlega stofnuð á mjög veikum grunni og með stuðningi Framsóknarflokksins í þá veru að Framsóknarflokkurinn mundi verja ríkisstjórnina falli. Nú hefur það komið í ljós að ríkisstjórnin hreinlega faldi upplýsingar í aðdraganda kosninganna, sem Framsóknarflokkurinn hafði ekki hugmynd um, sem hefði leitt að því að stuðningur við ríkisstjórnina hefði tafarlaust verið dreginn til baka. Þetta er að finna í leynimöppunni úti á nefndasviði sem ekki má birta því þar koma fram dagsetningar, þar sem því er vísvitandi haldið fram að þær upplýsingar hefðu ekki mátt fara í loftið og er ég að vísa í Icesave-málið og kúganir sem þar eru.

Það sem mig langar til að fara aðeins yfir, og sem mér finnst svo alvarlegt í þessu frumvarpi, má finna í VIII. kafla frumvarpsins í nokkrum lagagreinum, þ.e. breytingar á lögum nr. 88/1991, um aukatekjur ríkissjóðs, með síðari breytingum.

Eins og við vitum var farið með miklum flýti með bandorminn í gegnum þingið þar sem hækkaðir voru hér og þar ýmsir póstar, t.d. var ákvæðið um gjafsókn þrengt mjög til muna. Þær forsendur sem fólk þarf að uppfylla eru orðnar svo þröngar að nánast enginn getur notað það úrræði lengur. Ég talaði um það þá að þetta væri stórhættulegt, því að í samfélagi okkar sem og öðrum eru mál þannig að það er fullt af fólki sem hefur ekki efni á því að sækja rétt sinn fyrir dómi. Þess vegna hefur þetta gjafsóknarákvæði verið virkt hér í mörg ár og verið talsvert notað, en það er stjórnarskrárbundinn réttur að allir geti farið til dómstóla til að leita lausna mála sinna og um málið skuli dómstólar fjalla sem draga ekki taum einhvers.

Í framhaldi af þessu með gjafsóknina langar mig til að benda á að í 21. gr. frumvarpsins koma fram eftirfarandi breytingar á dómsmálagjöldum. Áður kostaði að gefa út stefnu 1.350 kr. en hér er lagt til að það hækki hvorki meira né minna en í 15.000 kr. Maður spyr sig, hvað með allt fólkið sem hefur ekki ráð á því, hvað þá að ráða sér lögfræðing, að hækka þetta svo mikið? Sérstaklega í ljósi þess að hér hefur orðið mikið bankahrun, ýmsir samningar eru í upplausn og fólk er að lenda í miklum vandræðum, ég er aðallega að vísa í að þetta sé í einkamálum.

Áður kostaði að þingfesta mál 3.900 kr. en nú er gerð tillaga um að framvegis fyrir stefnufjárhæð allt að 3 milljónum skuli það vera 15.000 kr. og að stefnufjárhæð frá 3 upp í 30 milljónir skuli vera 30.000 kr. Þarna hefði átt að bæta langtum meira í vegna þess að ef fólk er að sækja fjárkröfur fyrir slíkar upphæðir þá eiga þetta að vera langtum hærri upphæðir ætli ríkissjóður á annað borð að sækja sér tekjur. Það hefði verið alveg hreint upplagt að hækka þær tölur langtum meira því að þegar farið er að tala um 30 milljónir eru 30.000 kr. í þingfestingu ekki svo mikið mál.

Fyrir dómkvaðningu matsmanns var gjaldið áður 3.900 kr. en lagt er til að það verði 15.000 kr. En það er nú oft svo að sá kostnaður lendir beint hjá ríkinu aftur því að oft í sakamálum og öðru slíku er kvaddur til matsmaður og þá helst varðandi heilsu fólks, í skaðabótamáli eða öðru, þannig að þetta fer allt saman í hring hjá þessari ríkisstjórn. En þarna er verið að leggja til að upphæðin hækki upp í 15.000 kr.

Það er svolítið athyglisvert að fyrir endurrit og ljósrit á hverja síðu sem aðili þarf hækkar verð úr 150 kr. í 250 kr. Það er nú ágætt að pappírinn hækki hjá ríkisstjórninni. Eru ekki vinstri grænir einmitt svo umhverfisvænir að þeir eru farnir að spara pappírinn líka? En það er verra ef hækkunin leiðir það af sér að tekjur hætta að koma inn, eins og hv. þm. Pétur H. Blöndal hefur svo margoft komið fram með, að þegar skattarnir eru of háir fara þeir að hafa öfug áhrif.

Þá nefni ég meðferð einkamála fyrir Hæstarétti. Kæra fyrir Hæstarétti kostaði áður 12.700 kr. en nú er lagt til í frumvarpinu að fyrir kæru skuli borga 50.000 kr. Útgáfa áfrýjunarstefnu kostaði áður 12.700 kr. en fer núna upp í 25.000 kr. Svona get ég lengi talið.

Hér er verið að leggja til að gjöld fyrir fullnustugerðir og búskipti fyrir sýslumanni hækki mjög mikið. Út á það gengur 24., 25., 26. og 27. gr. frumvarpsins. Það bitnar líka á fjölskyldum í slíkum málum þegar fólk lendir í vandræðum og þarf kannski jafnvel að selja húsnæði, að verið er að hækka öll þau gjöld. Þarna inni eru dánarbú og annað. Verið er að hækka það.

Þinglýsingar eru hækkaðar úr 1.350 kr. — við skulum taka sem dæmi að þinglýsa þurfi húsaleigusamningi — í 2.000 kr. og svona má lengi telja.

En athyglisverðast er þó 30. gr. og varðar atvinnulífið vegna þess að þar er verið að leggja til stórkostlega hækkun á gjöldum fyrir veitingu atvinnuréttinda. Hvað er það sem við þurfum á að halda í landinu í dag annað en að fyrirtæki séu starfandi? Þess vegna þarf að skapa þau skilyrði fyrir fyrirtæki að þau geti verið sett á stofn en hér er lagt til að gjöld fyrir atvinnuréttindi verði hækkuð til muna.

Ríkisstjórninni er svo sem engin vorkunn að standa frammi fyrir þessu verkefni því það er hlutverk ríkisstjórna í hverju landi fyrir sig að sjá til þess að hægt sé að búa í viðkomandi ríki. Það hefur lengi legið fyrir þinginu tillaga sjálfstæðismanna í þá veru að innskatta séreignarsparnaðinn. Þessu hefur ríkisstjórnin alveg hafnað, sem er mjög undarlegt sérstaklega í ljósi þess að í frumvarpinu er verið að leggja til að fólk geti framlengt það ákvæði að taka út séreignarsparnað sinn og borga þá skatta af séreignarsparnaðinum. 1. október var búið að taka út 24 milljarða út úr kerfinu og ríkissjóður hafði af því talsverðar upphæðir, nokkra milljarða, minnir mig, sveitarfélög og ríkið, á milli fjögur og fimm þúsund milljarða, þannig að á sama tíma og ríkisstjórnin hafnar þeirri snilldartillögu sjálfstæðismanna er ríkisstjórnin samt sem áður að nota sér þetta ákvæði með þessum hætti, að mjatla inn tekjum í ríkissjóð með því að opna á þennan séreignarsparnað.

Það sem mér finnst svo athyglisvert við þessa leið ríkisstjórnarinnar er að þeir sem eru að taka út séreignarsparnað sinn nú eru þeir einstaklingar sem eru komnir út á ystu brún í fjármálum sínum, sem eru komnir í vandræði með afborganir því að þetta var hugsað sem bráðabirgðaúrræði til að byrja með þar til ríkisstjórnin mundi finna út leið til að lækka höfuðstól lána hjá einstaklingum og fjölskyldum.

Það var alltaf haldið í vonina að sú leið yrði farin. Okkur framsóknarmönnum fannst það eina leiðin sem hægt var að fara og höfum mikinn stuðning fyrir því í samfélaginu að hala niður höfuðstól lána hjá fólki, en ríkisstjórnin hefur ekki farið í þær aðgerðir og mér sýnist hún ekki ætla að fara í þær aðgerðir, því miður, þrátt fyrir að hægt sé að afskrifa miklar skuldir hjá einkahlutafélögum, skúffufyrirtækjum eða hvað þau eru kölluð, öll þau ósköp.

Það sem mér finnst svo ótrúlega ósanngjarnt í þeirri leið sem er verið að framfylgja í 41. gr., þ.e. að því ákvæði er haldið að taka megi séreignarsparnaðinn út, er að fólk eyðir þessum séreignarsparnaði til þess jafnvel að borga af húsnæði sínu, til þess jafnvel að lækka yfirdrátt á debetreikningum og jafnvel til þess að borga VISA-skuldir. Það er verið að reyna að nota þá peninga til að lækka með einhverjum hætti skuldirnar, en í leiðinni gerist það sjálfkrafa að fari einstaklingur í gjaldþrot er séreignarsparnaðurinn farinn þar með inn í það gjaldþrot og kemur ekki til baka af því að séreignarsparnaður og lífeyrissparnaður landsmanna er með þeim hætti að hann er ekki aðfararhæfur.

Ég held að margt fólk geri sér ekki grein fyrir þessu. Það reynir að bjarga sér dag frá degi með því að taka þetta út og svo ef allt fer á versta veg hjá viðkomandi eru örlög séreignarsparnaðarins með þessum hætti. Við skulum alveg átta okkur á því. Mér finnst ekki viðeigandi að ríkisstjórnin skuli koma með þetta fram ókynnt fyrir fólki því að þetta er ekkert annað en að fólk er að taka lán í sínum eigin sparnaði þegar til efri áranna kemur.

Tillaga sjálfstæðismanna gengur alls ekki út á það að séreignarsparnaðurinn eigi að vera snertanlegur fyrir almenning í landinu því að verið er að tala um að taka bara af skattgreiðslurnar fyrir fram. Sjálfstæðisflokkurinn leggur til að séreignarsparnaðarkerfið sé heilagt eftir sem áður, eins og lífeyriskerfi eiga að vera.

Ég heyrði eða sá í fréttum um daginn — fenginn var einhver álitsgjafi til að tala um þessi mál, ég man nú ekki hver þetta var — að þessi ákveðni aðili hafði grunsemdir um að þetta væri allt saman gert að beiðni Alþjóðagjaldeyrissjóðsins því að hann er þekktur fyrir það að þjóðnýta lífeyrissjóði þar sem þeir starfa. Það er nú að gerast hér úr því að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn lítur á lífeyrissjóðaeign landsmanna sem ríkiseign. Við skulum því átta okkur á því. En fram kom hjá þessum álitsgjafa að hann teldi að þetta væri með þeim hætti, fyrst væri þessu mjatlað svona út næstu fjögur til fimm ár, ríkið hefði tekjur á móti, sparnaðurinn þornar upp og svo þegar það væri búið yrði byrjað með sama hætti á almenna lífeyrissjóðakerfinu, að fólk gæti farið að taka fyrir fram út úr því.

Við sjáum auðvitað hvað er í gangi. Það er verið að framlengja líf fjölskyldna í landinu, að fólk geti lifað áfram á hungurmörkum í stað þess að fara í eina aðgerð og fella niður myndarlega höfuðstól lánanna hjá þessu fólki.

Þetta er norræna vinstri velferðarríkisstjórnin sem var með stór og fögur fyrirheit fyrir alþingiskosningarnar. Ég er svo fegin að ég hafði ekki tækifæri til þess að kjósa þessa flokka í síðustu kosningum, því auðvitað kaus ég sjálfa mig, vegna þess að ég hef oft velt því fyrir mér hvernig þeim einstaklingum líði sem veitti fólki umboð sitt áfram. Ég hef oft hugsað hve ofboðslega sár ég væri og svekkt hefði ég kosið vinstri græna eða hefði ég kosið Samfylkinguna af því að hér er búið að svíkja allt sem hægt er að svíkja. Það er ekki verið að hlusta á þjóðarvilja í einu einasta máli.

Hér eru mótmæli úti á Austurvelli þar sem Hagsmunasamtök heimilanna eru meðal annars að krefjast höfuðstólslækkunar á lánunum en ríkisstjórninni er alveg nákvæmlega sama, virðist vera, leggur fram frumvarp eftir frumvarp til að skattpína þegna sína enn frekar. Þeir einföldu skattar sem heita neysluskattar eru jafnvel skírðir upp á nýtt, þeir eru allt í einu orðnir auðlindaskattar, svo ég taki það sem dæmi og eins og hv. þm. Ragnheiður Elín Árnadóttir komst svo skemmtilega að orði í gær, sturtuskattur er ekki það sama og auðlindaskattur. Svona er þetta allt unnið hér.

Við tölum víst í kvöld fyrir í tekjuskattsmálinu, þar er verið að flækja tekjuskattinn svo gríðarlega og setja upp mörg skattþrep að ég held að hv. þingmenn ríkisstjórnarflokkanna viti tæpast hvað þeir eru að gera, enda kom það í ljós í umræðum í gær að hv. stjórnarþingmaður vissi nú ekki einu sinni að auðlindagjald væri á sjávarútveginum. Það var nú eitt, samt var hann að tala fyrir auðlinda- og umhverfissköttum.

Við skulum aðeins staldra við eins og þingmenn hafa bent á. Hér er svo mikill flýtir. Hér er ekki gefið andrými til að fara yfir málin. Þessu er sturtað inn síðustu dagana fyrir jól, auðvitað er þjóðin að fara að halda jól sem betur fer þrátt fyrir þessa hörmulegu ríkisstjórn, en svona eru vinnubrögðin. Sem betur fer hangir fólk ekki mikið yfir fjölmiðlum þessa dagana, fólk hefur ekki tíma til þess, það er að njóta lífsins með börnunum sínum. En þá starfar Alþingi hér og setur lög sem vart þola dagsljósið, sem vart er hægt að framkvæma þegar þau eru orðin að lögum. Álitsgjafi eftir álitsgjafa hefur varað ríkisstjórnina við í hverju málinu á fætur öðru en áfram skal keyrt, áfram skal keyrt með þjóðina út í skurð.