138. löggjafarþing — 54. fundur,  19. des. 2009.

fundarstjórn.

[17:51]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Herra forseti. Ég tel tilefni til að taka undir orð hv. þm. Birkis Jóns Jónssonar, varaformanns Framsóknarflokksins, sem ég hefði gjarnan, eins og líklega flestir aðrir, viljað fá tækifæri til að heyra skýra mál sitt áðan. En virðulegur forseti hefur að mínu mati við og við gert mannamun á fólki en það er kannski ekki aðalatriðið, heldur það er fljótfærni sem hefur einkennt hæstv. forseta. Á þessu er lausn og það er að líta til ástkærs forseta, Ástu Ragnheiðar Jóhannesdóttur, og hvernig hún heldur á stjórnartaumunum við atkvæðagreiðslur.

Hæstv. forseti. Ásta R. Jóhannesdóttir minnir þingmenn iðulega á að þeir geti tjáð sig, býður þeim að koma upp í atkvæðaskýringar og minnir þá alltaf á að greiða atkvæði. Það gerðist oft að menn gleymdu að greiða atkvæði en þá sagði hæstv. forseti: Ég vil minna hv. þingmenn á að greiða atkvæði — og leit hvössum augum yfir salinn. Þetta skilaði mjög góðum árangri því að ég held að menn hafi alveg verið hættir að detta út í atkvæðagreiðslum og iðulega munað eftir því að gera grein fyrir atkvæði sínu ef þeir höfðu sérstakan áhuga á því.