138. löggjafarþing — 54. fundur,  19. des. 2009.

fundarstjórn.

[17:53]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Herra forseti. Forseti má ekki skilja það sem svo að það hafi verið af einhverjum annarlegum hug eða hvötum sem ég kom upp til að gera með vinsamlegum orðum athugasemd við fundarstjórn forseta. Ég hef setið á Alþingi í nokkur ár og fylgst með því verklagi sem hér hefur viðgengist og ég vil segja við herra forseta að engin algild regla er í þessum efnum. Ég hef séð hv. þingmenn fá að gera grein fyrir atkvæði sínu þrátt fyrir að hafa beðið um að fá að taka til máls og gera grein fyrir atkvæði sínu eftir að umræddum orðum hæstv. forseta lýkur.

Ég fer einungis fram á það, herra forseti, að samræmi sé í vinnubrögðum og ég treysti því eftir ágæta ræðu hæstv. forseta að atvik sem þetta endurtaki sig ekki, þ.e. að ein regla gildi og engar undantekningar verði veittar á henni og jafnt verði látið yfir alla ganga, eins og það á að vera.