138. löggjafarþing — 55. fundur,  19. des. 2009.

framhaldsskólar.

325. mál
[18:17]
Horfa

Frsm. menntmn. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti frá hv. menntamálanefnd um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 92/2008, um framhaldsskóla.

Með frumvarpinu er lagt til að framhaldsskólum verði tímabundið heimilt að miða fjárhæð gjalds fyrir nám sem þeir bjóða upp á utan reglubundins starfstíma framhaldsskóla og fjarnám við allt að þriðjung af meðalkennsluframlagi á nemanda samkvæmt fjárlögum miðað við fullt nám. Ef nemandi er ekki í fullu námi skal gjaldið reiknast hlutfallslega miðað við fjölda námseininga. Í lögunum er kveðið á um að hámarksfjárhæð gjaldsins skuli miðast við 10% af meðalkennsluframlagi á nemanda samkvæmt fjárlögum miðað við fullt nám.

Ákvæði gildandi laga leiðir óbreytt til aukinna útgjalda framhaldsskóla vegna kvöldnáms, sumarnáms og fjarnáms sem ekki er gert ráð fyrir í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2010. Nefndin telur mikilvægt að kostnaður komi ekki í veg fyrir að framhaldsskólar geti boðið upp á nám af þessu tagi, enda nauðsynlegt að tryggja að námsúrræði standi öllum landsmönnum til boða óháð búsetu. Þá skiptir miklu máli að fólk geti aukið við menntun sína og þar sem nám í framhaldsskóla er sjaldan lánshæft til Lánasjóðs íslenskra námsmanna þurfi að tryggja að áfram sé mögulegt að bjóða upp á nám utan reglubundins starfstíma. Nefndin áréttar að gæta þurfi að því að skapa sem flestum tækifæri til náms og leggur því áherslu á að um tímabundna ráðstöfun sé að ræða.

Nefndin fjallaði sérstaklega um það viðmiðunargjald sem lagt er til að framhaldsskólum verði heimilt að miða við og taldi að ekki væri nægilega skýrt kveðið á um þær fjárhæðir sem um væri að ræða. Í eldri lögum um framhaldsskóla var við það miðað að fjárhæð gjaldsins gæti numið þriðjungi kennslulauna vegna kennslu í öldungadeildum. Í framkvæmd gat kostnaður milli skóla því verið mismunandi og því mun við ákvörðun gjaldsins hafa verið miðað við meðalframlag á nemanda eins og það var ákveðið í fjárlögum hvers árs. Nefndin leggur því til að í stað þess að miða hámark gjaldsins við allt að þriðjung af meðalframlagi samkvæmt fjárlögum á ársnemanda, þ.e. nemanda sem er í fullu námi á framhaldsskólastigi, er lagt til að gjaldið miðist við námseiningu. Fullt nám í framhaldsskóla miðað við heilt skólaár er 35 einingar. Samkvæmt því telur nefndin rétt að miða við að fjárhæð gjaldsins megi nema allt að 7.500 kr. á hverja námseiningu, en námsáfangar í framhaldsskóla eru almennt þrjár einingar. Nefndin tekur fram að þar sem meðalframlag til hvers skóla er mismunandi þyki rétt að kveða á um að fjárhæð gjaldsins megi þó aldrei vera hærri en sem leiðir af meðalframlagi til hvers skóla í fjárlögum.

Breytingartillagan er á þskj. 518 en nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þeirri breytingu.

Undir álitið skrifuðu með fyrirvara hv. þingmenn Ragnheiður Ríkharðsdóttir, Eygló Harðardóttir og Unnur Brá Konráðsdóttir.