138. löggjafarþing — 55. fundur,  19. des. 2009.

þjóðgarðurinn á Þingvöllum.

93. mál
[18:50]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég fagna því að það sé samstaða hér í þinginu um eitthvert mál og það er þá þetta mál. Það er gott að það sé hægt að fagna því að það sé samstaða innan Þingvallanefndar og þá bæði þessarar sem nú situr og hinnar fyrri. Engu að síður hafa allir hv. þingmenn þann stjórnarskrárbundna rétt að þeir eru einfaldlega bundnir við sína eigin sannfæringu og því tel ég mér alveg fullkomlega í sjálfsvald sett að vera með athugasemdir við það hvernig þetta mál er sett fram, þá sérstaklega ef við horfum til þess að þarna er verið að gera undanþágu frá gildandi lögum. Ég veit vel að þjóðgarðurinn á Þingvöllum er sérstakur og við eigum hann öll saman og okkur þykir öllum mjög vænt um hann en engu að síður er þarna frístundabyggð og þar er einfaldlega fólk eins og annars staðar sem er að kljást við ýmis málefni, t.d. varðandi vatn o.s.frv., sem einhverjar reglur þurfa að gilda um.

Þrátt fyrir að það sé ástæða til að breyta þessu og gera ákveðnar undanþágur finnst mér það ekki rökstutt fullnægjandi í frumvarpi til laga sem með fylgir einstaklega stutt greinargerð. Þá hefði verið hægt að setja eitthvað af þeim ágætu rökum sem hæstv. ráðherra kemur hér fram með inn í málið til að fylla og skýra aðeins betur hvað er verið að gera þarna. Við skulum alveg átta okkur á því að það eru fleiri en við sem hér sitjum sem förum yfir þetta mál. Þegar undanþágur eru gerðar frá gildandi lögum er mjög gott og sjálfsagt í stjórnsýslunni, sérstaklega á þingi, að það sé algjörlega skýrt hver röksemdafærslan á að vera.

Ég tel þetta gagnrýnivert en skal draga til baka að þetta mál sé unnið á handahlaupum ef ég hef sagt það. Ég tel engu að síður óhjákvæmilegt að fylla aðeins upp í þessa röksemdafærslu og útskýra, m.a. af hálfu (Forseti hringir.) allsherjarnefndar, hvers vegna ekki er fallist á þau sjónarmið sem koma fram í athugasemdum Sambands sunnlenskra sveitarfélaga.