138. löggjafarþing — 55. fundur,  19. des. 2009.

þjóðgarðurinn á Þingvöllum.

93. mál
[18:52]
Horfa

Frsm. allshn. (Steinunn Valdís Óskarsdóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka þeim hv. þingmönnum sem til máls hafa tekið um þetta mál svo og hæstv. heilbrigðisráðherra sem er jafnframt formaður Þingvallanefndar. Hún fór í sjálfu sér ágætlega yfir það í ræðu sinni hvernig lögin um frístundabyggð geta ekki samrýmst þeirri hugsun sem að baki Þingvallaþjóðgarði er. Þess vegna er lagt til að tekinn sé af allur vafi um stöðu þjóðgarðsins. Ég held að það sé það mikilvægasta í þessu vegna þess að það skiptir máli að það sé engin réttaróvissa um það hvaða lög gilda um þjóðgarðinn.

Það er rétt sem hæstv. ráðherra kom inn á, það var og hefur verið alltaf mjög víðtæk samstaða í bæði fyrri og núverandi Þingvallanefnd svo og í fyrri og núverandi allsherjarnefnd um þetta mál. Ég held að það skipti afar miklu máli. Ef einhverjir hv. þingmenn vilja kalla málið aftur til allsherjarnefndar á milli umræðna gera þeir það auðvitað og væntanlega verður þá orðið við því. Það er sjálfsagt að taka einn snúning á málinu til viðbótar í allsherjarnefnd. Ef menn telja að rökstuðningurinn í greinargerð með nefndarálitinu sé ekki nægjanlegur er alveg hægt að ná í þann rökstuðning sem er til og bæta inn í textann til að gera menn sáttari við hann ef það er það sem menn eru fyrst og fremst að kalla eftir. Rökstuðningurinn er svo sannarlega fyrir hendi eins og hæstv. heilbrigðisráðherra fór hér yfir.

Við erum ekkert að tala um neina venjulega sumarhúsabyggð hér, þetta er þjóðgarðurinn á Þingvöllum. Ég nefndi það reyndar í umræðum í nefndinni að sambærileg vandamál kunna vel að koma upp varðandi aðra þjóðgarða á landinu, t.d. nýstofnaðan Vatnajökulsþjóðgarð, að ég tali nú ekki um þjóðgarðinn á Snæfellsnesi. Til að flækja málið ekki að óþörfu ákváðum við hins vegar að setja þau mál ekki saman með þjóðgarðinum á Þingvöllum. Ég hyggst hins vegar taka þetta mál upp eftir áramót og fara yfir það vegna þess að aðrar reglur eiga að mínu mati og að mati annarra að gilda um staði sem íslenska ríkið hefur ákveðið að kalla þjóðgarða. Að mínu mati er ekki hægt að fallast á það að lögin um frístundabyggð gildi um staði sem allt öðruvísi háttar til um.

Eins og ég segi þakka ég fyrir þessa umræðu. Hún hefur verið málefnaleg og ef menn vilja kalla þetta mál aftur inn gera menn það og þá skulum við taka málið aftur til efnislegrar meðferðar, bæta textann og lengja hann ef það er það sem hv. þingmenn eru að kalla eftir.