138. löggjafarþing — 55. fundur,  19. des. 2009.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008.

286. mál
[20:06]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Frú forseti. Hér ræðum við í raun viðbragðsáætlun þingsins við væntanlegri skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um bankahrunið og aðdraganda þess. Ekkert okkar veit með vissu hvað skýrslan geymir og hvort fólk í lykilstöðum hafi gerst brotlegt við lög. Við í Hreyfingunni erum eina stjórnmálaaflið sem ekki sat á þingi þegar ósköpin dundu yfir en á nú sæti á Alþingi og því þurfum við ekki að óttast að fólk úr okkar röðum verði dregið fyrir landsdóm. Það hljóta hinir stjórnmálaflokkarnir, að VG kannski undanskildum, hins vegar að gera.

Frú forseti. Félagar mínir í Hreyfingunni hafa reifað hugmyndir okkar að breytingum — hv. þm. Birgitta Jónsdóttir á reyndar eftir að reifa sínar hugmyndir — og hvernig okkur hefði fundist æskilegt að vinna þetta mál og hvaða annmarkar hafa verið á málsmeðferðinni í þinginu.

Ég ætla ekki að endurtaka það sem þegar hefur komið fram í þeirra máli en mig langar hins vegar að velta upp einum vinkli enn. Mér þykir það í hæsta máta óeðlileg og ósanngjörn krafa á þingmenn að setja þá í þá stöðu að þurfa hugsanlega að láta kalla vini, kunningja, leiðtoga í flokkum sínum og samstarfsfólk til margra ára, jafnvel áratuga, fyrir landsdóm. Ég ætla ekki að gera fólki upp illan ásetning við afgreiðslu þessa máls. Ég skil líka vel að það er Alþingi eitt sem getur kallað ráðherra fyrir landsdóm vegna hugsanlegra embættisglapa og ég er ekki viss um að rétt sé að breyta því. En, frú forseti, það er ekki sanngjarnt að leggja þær byrðar á herðar þingmanns að þurfa að kalla einhvern nákominn sér fyrir landsdóm, óháð öllum öðrum sjónarmiðum, hans vegna. Í svona kringumstæðum verða þingmenn að stóla á leiðarljós að utan og við höfum lagt til að nefnd fimm valinkunnra manna, skipuð með sérstökum hætti, verði það leiðarljós.

Frú forseti. Það má ekki vera neinum vafa undirorpið að skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis fái þá meðferð sem nauðsynleg er svo hægt sé að gera hreint fyrir dyrum innan þings sem utan. Við megum ekki opna fyrir neina möguleika þess að hægt sé að drepa málinu á dreif, stinga einhverju undir stól eða tefja afgreiðslu málsins. Hlutverk Alþingis verður að vera alveg skýrt og það má enginn vafi leika á því að skýrslan fái eðlilega umfjöllun og þá meðferð sem nauðsynleg er svo fólkið í landinu finni að það búi í réttlátu samfélagi.

Frú forseti. Fyrr í dag var haldinn útifundur á Austurvelli. Þar var það krafa eins ræðumannsins að Alþingi og alþingismenn færu nú að vinna fyrir fólkið í landinu og með óskir þess í fyrirrúmi. Almenningur vill heiðarlegt uppgjör og Alþingi má ekki bregðast þeirri kröfu.