138. löggjafarþing — 55. fundur,  19. des. 2009.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008.

286. mál
[20:12]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (Hr):

Frú forseti. Úr þessum ræðustól hafa ráðherrar eða forsetar ásakað mig um að skapa tortryggni eða að hjá mér búi annarlegar hvatir þegar ég hef mælt gegn þessu frumvarpi um sérstaka þingmannanefnd vegna rannsóknarskýrslu þingsins sem allir bíða eftir annaðhvort með kvíða eða í ofvæni.

Þetta er engin venjuleg skýrsla, enda tekur hún á hruninu, hruni sem er mun víðtækara en bara hrun fjármála, hrun sem sýnir svo ekki verður um villst að hérlendis hefur orðið siðrof. En hvað er siðrof? Ég hafði aldrei velt þessu orði fyrir mér fyrr en í hruninu í fyrra. Siðrof er þegar siðferðisbrestirnir eru svo miklir í samfélaginu að líkja má því við jarðrof og siðferðisvitundin verður jafnístöðulaus og moldrok. Sú bábilja og veruleikafirring að halda að þingið eigi eitt að standa að því að meta hvort kalla eigi saman landsdóm eða veita sjálfu sér aðhald mundi ég síðan vilja kalla veruleikarof. Ég hef nefnilega ekki enn fyrirhitt neinn fyrir utan þingheim sem finnst þetta snjöll hugmynd hjá hv. forsætisnefnd.

Þrátt fyrir ítarlegar, vandaðar og málefnalegar ábendingar og tillögur Hreyfingarinnar í þessu máli er enginn áhugi meðal annarra afla á Alþingi að afgreiða það með öðrum hætti en þeim sem tryggir augljósa hagsmuni þeirra flokka sem voru við stjórnvölinn við bankahrunið og í aðdraganda þess. Það hlýtur að vera öllum ljóst að alþingismenn eru ekki færir um að leggja hlutlaust mat á eigin störf, foringja sinna eða samstarfsmanna til margra ára, hvað þá að koma með tillögur sem tryggja að þetta fólk og þessi stofnun njóti nauðsynlegs aðhalds. Nauðsynlegt er að hlutlausir aðilar komi að vinnslu málsins á öllum stigum þess, hvort heldur sem álitsgjafar við lagasmíð eða fagmenn við afgreiðslu skýrslunnar. Tryggja þarf réttlæti og gagnsæi í öllu ferlinu.

Frú forseti. Mér finnst sorglegt hvernig á að taka á þessu máli, mér finnst sorgleg sú veruleikafirring sem ég finn innan veggja þingsins. Það má ekki gagnrýna þau vinnubrögð sem hér eru viðhöfð án þess að vera ásakaður um að hafa annarlega hvatir að leiðarljósi. Ef það eru annarlegar hvatir að kalla eftir skynsamlegri meðferð á svo mikilvægu máli mega hv. þingmenn alveg kalla þetta ákall um að horfast í auga við þá gjá sem hefur myndast á milli þjóðar og þings annarlegar hvatir. Ef það að benda á gallana við það að þingið veiti sjálfu sér aðhald er til þess fallið að skapa tortryggni um þingið verður svo að vera. Ég held að tortryggnin hafi lítið með mín orð að gera heldur miklu frekar með það skelfilega hrun sem hér átti sér stað og þann sofandahátt sem átti sér stað innan veggja þingsins. Miðað við þau vinnubrögð sem viðgangast hér á þessum síðustu vikum skil ég alveg hvernig þingið og þjóðin flaut sofandi að feigðarósi og inn í þá erfiðleika sem við glímum við núna.

Ég gagnrýni harðlega það veruleikarof sem á sér stað inni í sölum þingsins, það er veruleikarof að gera sér ekki grein fyrir því að almenningur vill önnur vinnubrögð en hér hafa verið ástunduð. Það er lítið traust á þinginu að gefnu tilefni. Þingið sem og aðrir ráðamenn brugðust þjóðinni vegna slakrar lagasetningar varðandi fjármálakerfið. Það hefði verið lag að sýna að okkur er full alvara með að taka á hlutunum utan hefðar veruleikans sem að mörgu leyti er eins og myllusteinn um þingstörfin. Það hefði verið lag að sýna að við þorum að leita leiðsagnar utan þings á meðal fólks sem á engra hagsmuna að gæta nema að vera leiðarljós fyrir þingið um hvernig taka beri á málum er varða þingið sjálft og þá fulltrúa sem hugsanlega brugðust í því hlutverki.

Ef þessi orð mín eru til þess fallin að auka á tortryggni gagnvart þinginu verður svo að vera. Ég verð að viðurkenna að mannlegir brestir eru fangaðir með löggjöf og hér innan veggja hefur sýnt sig að mannlegir brestir eru ekki síður landlægir en annars staðar í samfélaginu. Hættum að setja okkur skör hærra en annað fólk og viðurkennum vanmátt okkar til að taka á þeim þætti þessa máls sem setur þingmenn í þá ómögulegu stöðu að fjalla um svo viðkvæm mál er varða þeirra eigin samherja.