138. löggjafarþing — 55. fundur,  19. des. 2009.

veiting ríkisborgararéttar.

335. mál
[20:17]
Horfa

Frsm. allshn. (Steinunn Valdís Óskarsdóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um veitingu ríkisborgararéttar sem flutt er af allsherjarnefnd. Aðdragandi málsins er eins og venjan er, allsherjarnefnd hefur fjallað um málið og á vegum nefndarinnar hefur sérstök undirnefnd fjallað um málið og farið yfir lista þeirra sem óskað hafa eftir því að öðlast íslenskan ríkisborgararétt. Þau mál sem koma til kasta Alþingis eru þau mál sem þarf að veita undanþágu fyrir og hljóta ekki venjubundna afgreiðslu hjá dómsmála- og mannréttindaráðuneytinu.

Í ár bárust eins og oft áður nokkuð margar umsagnir. Alþingi veitir alla jafna þennan ríkisborgararétt eða tvisvar á ári og leggur allsherjarnefnd til núna að 15 einstaklingar hljóti ríkisborgararéttinn. Listinn liggur fyrir á þingskjali 524 og ég sé, frú forseti, enga sérstaka ástæðu til að lesa listann upp með nöfnum þessara einstaklinga, hann liggur hér fyrir. Ég vil hins vegar nota þetta tækifæri til að óska öllum þeim einstaklingum sem á listanum eru til hamingju með það að allsherjarnefnd hefur lagt það til við hið háa Alþingi að þeir öðlist íslenskan ríkisborgararétt.