138. löggjafarþing — 55. fundur,  19. des. 2009.

tekjuöflun ríkisins.

256. mál
[20:37]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Menn eiga að segja rétt frá. Ef meiningin er að auka skattbyrði á alla tekjuhópa þjóðfélagsins, þá eiga menn að segja það og að það sé nauðsynlegt og að menn ætli að hlífa þeim lægst launuðu með því að hækka skattana minnst á þá. Þetta eiga menn að segja hreint út en ekki vera með einhvern feluleik eins og hefur oft komið fram í mæli stjórnarliða og hæstv. ráðherra. Mér finnst að það eigi að koma skýrt fram. Við erum að hækka skatta á alla tekjuhópa, líka þá lægst launuðu en hækkunin verður minnst og kannski kurteisust hjá þeim.

Svo um sjómannaafsláttinn og fæðingarorlofið. Það vill svo til að fæðingarorlofið var aðallega sett fram með það að meginmarkmiði að gera karlmenn jafndýra og konur í atvinnulífinu, til að ryðja þessari hindrun gegn jafnrétti kynjanna úr vegi. Fæðingarorlofið er ekki bara einhver réttindi eða eitthvað slíkt, þetta eru grundvallarmannréttindi, jafnrétti kynjanna. Ég hélt að þessi stjórn sem nú situr við völd hefði áhuga á því að bæta jafnrétti kynjanna, en í staðinn veikir hún Fæðingarorlofssjóð stöðugt með því að lækka hámarkið og segja í raun við atvinnulífið: Við skulum hafa jafnrétti í öllum launum nema þeim háu.

Varðandi sjómannaafsláttinn, þó að hann sé gamall þá er hann brot á þeirri jafnræðisreglu að allir séu jafnir fyrir lögum. Það eru ekki allir jafnir fyrir skattalögum, ekki sjómenn. Þess vegna held ég að þær hugmyndir sem hafa komið upp séu miklu betri að þeir njóti bara dagpeninga eins og aðrir menn og sömu réttinda og skyldna (Forseti hringir.) og aðrir.