138. löggjafarþing — 55. fundur,  19. des. 2009.

tekjuöflun ríkisins.

256. mál
[20:43]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og skattn. (Helgi Hjörvar) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að taka auðlegðarskattinn upp, því þar eru breytingartillögur sem ég reifaði ekki í framsögu minni. Í umfjöllun nefndarinnar kom fram að álagning eins og lagt var upp með væri í raun og veru óframkvæmanleg, vegna þess að einstaklingar telja fram á fyrri hluta árs en félög á hinum síðari. Breytingartillögur okkar lúta einfaldlega að því að gera innheimtu skattsins og álagningu tæknilega framkvæmanlega.

Um auðlegðarskattinn almennt er hann fráleitt hinn gamli eignarskattur eða ekknaskattur, eins og hann var nú gjarnan uppnefndur, enda lá sá skattur á svo lágum eignum að fólk þurfti að greiða eignarskatta af ósköp venjulegum húseignum. Hér er hins vegar um að ræða auðlegðarskatt á hreinar eignir einstaklinga yfir 90 millj. kr. og hjóna yfir 120 millj. kr. Ég held að það hve þessi skattur hefur mætt lítilli andstöðu í opinberri umræðu endurspegli í raun og veru bara þann almenna skilning sem er á því að við þær aðstæður sem nú eru sé einfaldlega eðlilegt að þeir sem svo styrkum fótum standa fjárhagslega leggi aðeins aukalega af mörkum til að mæta þessu verkefni og ég vek athygli á því að skatturinn er tímabundinn á meðan við erum að fara í gegnum þessa erfiðleika og tekjurnar af honum verða notaðar til þess að hækka vaxtabætur, einmitt til þeirra sem hafa farið verst út úr hruninu, skuldsettra heimila með mikinn vaxtakostnað.