138. löggjafarþing — 55. fundur,  19. des. 2009.

tekjuöflun ríkisins.

256. mál
[21:40]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta efh.- og skattn. (Birkir Jón Jónsson) (F):

Frú forseti. Það er í sjálfu sér dapurlegt að við skulum vera að ræða eitt aðalmál þingsins sem snertir skattlagningu á heimili og fyrirtæki hér á laugardagskvöldi (APS: Gott sjónvarpsefni.) Og mér sýnist, af því að hv. þm. Anna Pála Sverrisdóttir talar um að hér sé um gott sjónvarpsefni að ræða, að það sé umdeilanlegt. En mér sýnist á öllu og miðað við hvernig mælendaskráin er að hér verði talað inn í nóttina og það er náttúrlega ekki verið að sýna þessu mikilvæga máli þá virðingu sem það á skilið því að að sjálfsögðu á að ræða þessi mál í dagsbirtunni, málin sem varða heimilin og fyrirtækin í landinu. En vinnulagið á Alþing er með þeim hætti að það er gersamlega óásættanlegt, eins og ég mun koma frekar að í seinni hluta ræðu minnar. Ég hvet hv. þm. Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur að hlusta vandlega á það sem ég hef að segja því að ég vil að hv. þingmaður svari fyrir Samfylkinguna því að þó að Samfylkingin haldi öðru fram þá er hún í ríkisstjórn og hún hefur verið í ríkisstjórn vel á þriðja ár.

Með frumvarpi þessu er ætlunin að afla ríkinu aukinna tekna með breytingum á ýmsum lögum, m.a. um tekjuskatt, staðgreiðslu opinberra gjalda, fjármagnstekjur og tryggingagjald.

Gert er ráð fyrir að auka flækjustig kerfisins verulega, að skattþrep einstaklinga verði þrjú og skiptist þannig að af fyrstu 2,4 millj. kr. tekjum einstaklings greiðist 24,1% tekjuskattur, 27% af næstu 5,4 millj. kr. og 33% ef tekjur eru yfir 7,8 millj. kr. Þegar skattaðilar eru samskattaðir skal taka tillit til þess ef annar er undir 7,8 millj. kr. Persónuafsláttur einstaklinga hækkar um 2.000 kr. og ákvæði um að afslátturinn fylgi vísitölu neysluverðs á að falla brott.

Þriðji minni hluti bendir á að fjölgun skattþrepa sem ríkisstjórnin leggur til muni hafa í för með sér alls kyns flækjur í skattframkvæmdinni og verða dýr í rekstri. Undirbúningstíminn er nánast enginn, aðeins örfáir dagar, og aðlögun launakerfa fyrirtækja landsins tekur tíma og er dýr. Ljóst er að þungi framkvæmdarinnar lendir verulega á launagreiðendum. Fyrirsjáanlegt er að um verði að ræða verulega eftirávinnu að tekjuári loknu og að staðgreiðsluskil versni til muna frá því sem nú er.

Þá er launakerfum landsmanna ætlað veigamikið hlutverk í framkvæmd breyttrar staðgreiðslu. Ljóst er að búast má við erfiðri byrjun ef af breytingunum verður og ýmislegt sem úrskeiðis getur farið. Þetta kemur á sama tíma og verulegur niðurskurður hefur farið fram innan skattkerfisins og aðhaldsaðgerðir verið í mannahaldi.

Kostnaður skattgreiðenda við þessar breytingar stjórnarflokkanna verður verulegur og að margra áliti mjög vanmetinn í kostnaðarumsögn fjármálaráðuneytis. Gera má ráð fyrir því að breytingarnar muni kosta um 200–300 millj. kr. en ekki gafst tími til að fara ítarlega ofan í forsendur og hvað sé raunhæft í þessum efnum vegna tímaskorts. Nú þegar hver einasta króna á að vera vegin og metin í útgjöldum ríkisins kemur spánskt fyrir sjónir að sjá vilja stjórnvalda til að eyða fjármunum almennings í þessar breytingar.

Jafnframt er það viðurkennt að eftirágreiðsla skatta er ekki eins skilvirk og staðgreiðslan og munu því minni fjármunir renna í ríkissjóð. Hér gæti verið um hundruð milljóna að ræða, jafnvel milljarða. Það að hafa mörg skattþrep getur skapað hvata hjá einstaklingi sem er að vinna hjá fleiri en einum atvinnurekanda að telja allar sínar tekjur fram í lægsta skattþrepi og fresta vandanum um sinn og fá himinháan bakreikning frá skattinum sem óljóst er hversu vel mun innheimtast.

Nefndarálit þetta er ritað seint á föstudagskvöldi en á laugardagsmorgni hyggst meiri hluti nefndarinnar kynna þær breytingar sem lagðar eru til á frumvarpinu. Ekki er hægt að fjalla um þær breytingar hér þegar þetta er skrifað þar sem ekki er fyllilega vitað hverjar þær verða. Frumvarpið á að taka út úr nefnd í beinu framhaldi og ræða í sölum Alþingis sama dag eða nú í kvöld. Þetta verklag er óásættanlegt og vitlaust og má segja að kannski beri skattafrumvörp ríkisstjórnarinnar þess merki. Ótal aðilar sem veitt hafa umsagnir um frumvarpið hafa gagnrýnt málsmeðferðina og samráðsleysið. Þrátt fyrir það hlustar meiri hlutinn ekki og heldur sinni stefnu, sama hvað hverjum finnst.

Þetta mál er því vanreifað í grundvallaratriðum og mig langar á þeim stutta tíma sem ég hef til að fara yfir þetta mál að fara yfir nokkur álitaefni sem hafa komið upp í umræðunni hjá gestum nefndarinnar og í þeirri veiku von að stjórnarliðar sem eru í salnum hlusti nú og taki þær ábendingar, sem eru margar alvarlegar, til skoðunar.

Hv. þm. Anna Pála Sverrisdóttir kom upp fyrir hönd jafnaðarmannaflokksins Samfylkingarinnar og talaði um réttlátt skattkerfi. Ræðan var falleg, það vantaði ekki, fyrirheitin fögur, (Gripið fram í.) rétt eins og hjá Samfylkingunni á undangengnum mánuðum og í aðdraganda síðustu kosninga. Það er búið að finna línuna: „Réttlátt skattkerfi“. En þá skulum við skilgreina réttlæti. Það væri gott ef hv. þm. Anna Pála Sverrisdóttir gæti svarað mér því hvort það er réttlæti að skattlagning tvennra hjóna sem búa í sömu götu geti verið með mismunandi hætti jafnvel þótt bæði heimilin hafi sömu atvinnutekjur.

Það sem verið er að leggja til með þessu frumvarpi er að hjón, þar sem annar aðilinn hefur há laun og hinn aðilinn er heimavinnandi eða hefur lág laun, þurfa að borga hærri skatta en millitekjufólkið við hliðina sem hefur mjög svipuð laun. Er þetta réttlæti hjá Samfylkingunni, að stuðla að breytingum sem þessum, að hjónum sem búa í sömu götu í húsum hlið við hlið sé mismunað með þessum hætti? Þetta er ekki réttlæti í minni orðabók. Þetta er óréttlæti. Við höfum talað fyrir því í nefndinni að gera breytingar í þá átt að koma á raunverulegu réttlæti þegar kemur að þessum hlutum. Það væri fróðlegt að heyra frá hv. þingmanni Samfylkingarinnar, Önnu Pálu Sverrisdóttur hvort þetta er réttlæti í orðabókum Samfylkingarinnar.

Annað sem stjórnarmeirihlutinn hefur gert, náttúrlega án nokkurs samráðs, er að leggja það til að afnema sjómannaafsláttinn, góðan daginn! Það var tilkynnt: Sjómannaafslátturinn verður afnuminn. Þetta skulið þið fá að heyra, þetta er það sem við ætlum að gera og það þarf ekkert að tala við sjómenn.

Það kom fram þegar nefndin fór ofan í kjör sjómanna á Norðurlöndum að á öllum Norðurlöndum er einhvers konar sjómannaafsláttur. Nú ætlar fiskveiðiþjóðin Ísland með Samfylkinguna og Vinstri hreyfinguna – grænt framboð að afnema þessi réttindi sjómanna. Hver er viðmiðunin sem Samfylkingin og Vinstri grænir hafa í þeim efnum? Þeir miða við kjör sjómanna árið 2007 og í dag, en árið 2007 voru sjómenn láglaunastétt í íslensku samfélagi miðað við margar aðrar stéttir. Af hverju var árið 2007 valið? Af hverju ekki 2003 eða 2000, sem hefði gefið allt aðra mynd af þróun tekna sjómanna? Jú, af því að það hentaði ríkisstjórninni. Þetta er svo sem ekkert ósatt en það er ósanngjarnt gagnvart sjómönnum að þessi samanburður sé með þessum hætti.

Hvað les maður svo núna í kvöld á mbl.is? Þar kemur fram, með leyfi frú forseta:

„Fulltrúar Landssambands íslenskra útvegsmanna eru tilbúnir til viðræðna við stjórnvöld um upptöku annars konar fyrirkomulags en sjómannaafsláttar og hafa í því sambandi nefnt dagpeningagreiðslur sem ýmsar starfsstéttir njóta.“

Getum við þar með nefnt opinbera starfsmenn.

Sjómenn kalla eftir viðræðum við ríkisvaldið. Það er ekkert á þá hlustað. Þeir gætu alveg staðið í kuldanum úti á Austurvelli og beðið eftir því að fulltrúar stjórnarflokkanna kæmu út til viðræðna. En þeir láta ekki sjá sig. Allt er þetta gert án samráðs við þessa stétt, rétt eins og gagnvart kjörum aldraðra og öryrkja og rétt eins og gagnvart skólafólki sem hv. þm. Anna Pála Sverrisdóttir heldur blygðunarlaust fram að ríkisstjórnin standi vörð um. Nei, það hefur verið gerð aðför að kjörum þessara stétta og hin norræna velferðarstjórn er í besta falli öfugmæli ef ekki lýðskrum í þessu samhengi. Það er ekki hægt að líða það að hv. stjórnarliðar komi hér fram og tali með þeim hætti að þessi ríkisstjórn sé svo frábær og sé búin að gera svo góða hluti fyrir þessar stéttir þegar staðreyndin er sú að fyrsta verk hennar gagnvart öldruðum og öryrkjum var að skerða kjör þeirra um milljarða. Þessi málflutningur stenst einfaldlega ekki.

Ég ætla að skipta því sem ég á eftir af ræðu minni í tvennt: Annars vegar að praktískum atriðum, hvað sé raunhæft að innleiða af þessum breytingum og hver kostnaður samfélagsins og ríkisins sé vegna þessara breytinga og í seinni hlutanum ætla ég að ræða um málefni heimilanna og hvort þau hafi svigrúm til að standa undir auknum skuldbindingum sem þessar skattkerfishækkanir hafa í för með sér. Það erum ekki bara við í stjórnarandstöðunni sem erum að gagnrýna vinnulagið á þingi eða það hversu seint málin koma fram og hvort það sé raunhæft að koma þeim öllum í framkvæmd. Ég ætla að rekja umsögn ríkisskattstjóra sem er orðinn sigldur í þessum fræðum og þekkir vel skattkerfið, trúlega betur en margir hv. þingmenn. Hér segir, með leyfi frú forseta:

„Í 14. gr. frumvarpsins er lagt til að tekjuskattur verði stighækkandi eftir tekjuskattsstofni.“

Síðar segir, með leyfi frú forseta:

„Á hinn bóginn er ljóst að verði þessar breytingar að lögum þá mun staðgreiðsluframkvæmd verða flóknari og ónákvæmari. Sérstaklega á þetta við um þá sem starfa hjá fleiri en einum launagreiðanda og jafnframt um þá sem samskattaðir eru og hafa mismiklar tekjur. Við álagningu opinberra gjalda mun fjöldi framteljenda annaðhvort eiga innlegg hjá hinu opinbera í formi afgreidds tekjuskatts og útsvars eða skulda opinber gjöld. Samkvæmt upplýsingum úr staðgreiðslukerfi ríkisskattstjóra eru um það bil 33 þúsund launþegar með hærri árstekjur en 2,4 millj. kr. og þiggja laun frá fleiri en einum launagreiðanda. Gera má ráð fyrir að langflestir þessara aðila muni fá leiðréttingu í álagningu. Að mati ríkisskattstjóra hefði verið hentugra að taka upp fyrirframgreiðslukerfi líkt og var við lýði þegar sérstakur tekjuskattur var í gildi þá greiddu menn fyrirfram upp í væntanlega álagningu og var fyrirframgreiðslan byggð á tekjum liðins tekjuárs.“

Þetta segir ríkisskattstjóri og bætir því við seinna í þessu áliti að erfitt sé að áætla kostnað í sambandi við innleiðingu þessara laga en gera má ráð fyrir að hann verði verulegur.

Annar skattstjóri, skattstjóri Suðurlandsumdæmis, segir svo, með leyfi frú forseta:

„Hin fjögur skattþrep sem hér eru boðuð munu hafa í för með sér alls kyns flækjur í skattframkvæmdinni og verða dýr í rekstri. Undirbúningstíminn er nánast enginn og aðlögun launakerfa landsmanna tafsöm og dýr. Þungi framkvæmdarinnar lendir verulega á launagreiðendum. Fyrirsjáanlegt er að um verði að ræða verulega eftirávinnu að tekjuári loknu og að staðgreiðsluskil versni til muna frá því sem nú er. Hvað sem öðru líður er íslenskt samfélag og landslag í skattamálum með allt öðrum hætti en í nágrannaríkjunum. Vinnumarkaðurinn er hvikulli og aðstæður fjölskyldnanna ólíkar þeim ramma sem þeim er skorinn annars staðar á Norðurlöndum.“

— Nú er það ljótt, frú forseti, áður en ég held áfram, að hafa misst hv. þm. Pétur H. Blöndal úr salnum því að mér finnst að hv. þingmaður þurfi að hlusta núna í framhaldi. Ég er að vitna í umsögn skattstjóra Suðurlandsumdæmis þar sem segir og ég er kominn dálítið inn í umsögn hans. Þar segir áfram, með leyfi frú forseta:

„Tekjutengingar bóta, bæði skattkerfis og almannatrygginga bera sorglegan vott hér um. Eftirákröfur og umsýsla þeim fylgjandi eru þreytandi og á margan hátt jafnvel mannskemmandi og alls ekki í anda þess velferðarkerfis sem hér tjáðist ríkja og ekki vekja traust þegnanna á kerfum sem slíkt stunda.“

Mér fannst rétt að minna hv. þingmann og sessunaut minn í efnahags- og skattanefnd á þessa umsögn heiðursmannsins Steinþórs Haraldssonar, skattstjórans á Suðurlandi. (PHB: Ja, ljótt er það.) Og nú heyri ég að hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir hlær nokkuð en hér er náttúrlega um grafalvarleg mál að ræða.

Að lokum segir Steinþór Haraldsson, skattstjóri Suðurlandsumdæmis, með leyfi frú forseta:

„Á heildina litið eru allar hinar fyrirhuguðu efnisbreytingar frumvarpsins framkvæmanlegar innan núverandi kerfis að mínu mati. Tími til undirbúnings er þó knappur og ýmislegt má ætla að úrskeiðis geti farið. Skattkerfið er þessa stundina í verulegum niðurskurðarfasa og aðhaldsaðgerðum í mannahaldi. Nú þegar er farið að bera á atgervisflótta eða hugleiðingum þar um hjá einstökum starfsmönnum á ýmsum skattstofum landsins. Við slíku verður að bregðast. Sérstaklega í ljósi hinna viðamiklu breytinga sem nú er mælt fyrir um.“

Þarna bendir skattstjóri Suðurlandsumdæmis á að ríkisstjórnin er, um leið og hún innleiðir þetta, að stokka upp allar skattstofur landsins. Gríðarleg óvissa er vítt og breitt um landið um það hvernig málum verður háttað. Það er búið að setja allt í háaloft innan skattkerfisins um leið og einar viðamestu breytingar á skattalöggjöfinni eru keyrðar í gegnum Alþingi á nokkrum dögum. Þessi vinnubrögð eru með ólíkindum. Ég hef reyndar sagt það oftsinnis í dag að ég efast um að það hafi verið farið með mál eins og þessi með eins óvönduðum hætti í gegnum Alþingi á eins stuttum tíma og nú og stjórnarliðar hafa ekki einu sinni reynt að mótmæla því.

Ég spurði hv. þm. Lilju Mósesdóttur í dag að því hvað henni þyki um þessar starfsaðferðir þingnefndarinnar. Sá rammi sem okkur var skapaður af framkvæmdarvaldinu til að vinna þessi mál. Þingmaðurinn svaraði ekki spurningunni, enda veit ég alveg skoðun hv. þingmanns og allra sem eru í nefndinni, þær aðstæður sem okkur voru búnar til að klára þessi viðamiklu mál voru náttúrlega óviðunandi og það væri ágætt að heyra hv. þm. Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur tala um það hversu vandlega og vel henni hafi fundist vera að verki staðið í þessu máli. Ég trúi því ekki að hv. þingmaður muni koma upp í andsvar og reyna að réttlæta þessi vinnubrögð sem eru ekki Alþingi Íslendinga til sóma og ekki íslenskri þjóð bjóðandi. En þetta er allt í boði Samfylkingarinnar og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs.

Hv. þm. Anna Pála Sverrisdóttir nefndi það að ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks hefði sett á 10% fjármagnstekjuskatt. Það er rétt. En staðreyndin er sú að þegar Alþýðuflokkurinn var í ríkisstjórn frá 1991–1995 var enginn skattur á fjármagnstekjur, enginn. Sú ríkisstjórn setti þó einhverja skattlagningu á fjármagnstekjur á meðan forveri Samfylkingarinnar, Alþýðuflokkurinn, hlífði fjármagnseigendum með því að hafa enga skattlagningu. Svo kemur hv. þingmaður hér upp og þykist vera talsmaður jafnaðarmannaflokks landsins. Það er náttúrlega með ólíkindum að hlusta á þessar ræður og þessi andsvör hjá Samfylkingunni og þegar þingmenn hennar koma upp og ræða um Icesave og ábyrgð einstakra flokka hvað það varðar, liggur við að maður hverfi úr salnum. Það er varla hægt að hlusta á þennan málflutning hjá þeim flokki sem innleiddi Icesave-samningana. Icesave-samningarnir bólgnuðu upp á vakt Samfylkingarinnar sem hafði bankamálaráðuneytið á sinni ábyrgð og svo kemur Samfylkingin hér og talar um einhverja hrunaflokka. Það er Samfylkingin sem ber þessa ábyrgð. Ég hlakka til að heyra ræðu hv. þm. Önnu Pálu Sverrisdóttur á eftir því að það er öllu snúið á haus í málflutningi Samfylkingarinnar í þessari umræðu, það er alveg með ólíkindum. Það liggur við — nei, nú ætla ég að sleppa því sem ég ætlaði að segja því að stundum er betra að segja minna en meira. En við skulum heyra hvað hv. þingmaður leggur til málanna á eftir.

Mig langar að tala um aðila vinnumarkaðarins sem hafa verið á öðrum endanum yfir þessum skattaáformum ríkisstjórnarinnar. Alþýðusamband Íslands, sem hefur löngum verið tengt Samfylkingunni, hefur mótmælt harðlega þeim vinnubrögðum sem viðhöfð hafa verið í þessu máli. Það er ekki bara samráðsleysið, það er náttúrlega samráðsleysi í þessu máli, eins og komið hefur á daginn, en einnig er gengið harðar fram í skattahækkun á heimilunum en stöðugleikasáttmálinn gerði ráð fyrir. Þó skrifuðu menn undir þann samning. En hann er þverbrotinn. Heimilin munu þurfa að greiða mun hærri álögur en kveðið var á um í samkomulagi aðila vinnumarkaðarins, ríkisins og sveitarfélaganna. Hvernig ætla stjórnarliðar að útskýra af hverju ríkisstjórnin stendur ekki við þetta samkomulag?

Samtök atvinnulífsins og fleiri aðilar hafa líka gert miklar athugasemdir við það hvernig ríkisstjórnin hefur gengið fram í þessu máli. Og enn og aftur, frú forseti, er það grátlegt í ljósi almennra athugasemda nærri því allra hagsmunaaðila um þetta mál, um kerfisbreytinguna sem slíka, flækjustigið, samráðsleysið og þess knappa tíma sem ríkisstjórnin gefur sér til að þröngva þessu máli í gegnum þingið, að ræða þetta mál á laugardagskvöldi í skjóli myrkurs, eitt stærsta mál er varðar hag íslenskra heimila. Það á að þröngva þessu máli í umræðu inn í nóttina. Ætli það sé vegna þess að ríkisstjórninni finnist þessi umræða óþægileg fyrir sig? Ætli það geti verið? Þessi umræða er óþægileg. Ég man varla eftir öðrum eins umsögnum um nokkurt frumvarp sem komið hefur fram sem eru eins samhljóma um verklagið og óvönduð vinnubrögð eins og hér hefur komið fram, hvort sem það er hjá aðilum vinnumarkaðarins, skattstjórum eða endurskoðendafyrirtækjum sem reyna að aðstoða íslenskan almenning við að telja fram. Það er algerlega með ólíkindum að standa hér á þessu kvöldi og ræða þetta mál í því samhengi. Það er dálítið merkilegt og segir kannski mikið um stöðu mála á Íslandi í dag að lesa umsögn hagsmunasamtaka heimilanna. Þar segir í upphafi umsagnarinnar, með leyfi frú forseta:

„Hagsmunasamtök heimilanna (HH) vilja byrja á því að þakka sýnt traust til að veita efnahags- og skattanefnd umsögn um frumvarpið. Samtökin sjá þó ekki mikinn tilgang með umsögninni þar sem reynsla samtakanna er að lítið hefur verið hlustað á varnaðarorð samtakanna undanfarna tæpa 11 mánuði. Er það þrátt fyrir að flest það hefur komið fram sem samtökin hafa varað við.“

Síðar segir í umsögninni, og það væri ágætt að hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir mundi veita mér svör um það hvað henni finnst um þessi orð Hagsmunasamtaka heimila, með leyfi frú forseta:

„Það er mat Hagsmunasamtaka heimila að nærri helmingur heimila ber ekki auknar álögur.“

Hvað þykir hv. þingmanni um þetta nú þegar hv. þingmaður ætlar að leggja til stórauknar skattahækkanir á heimilin sem eru mörg hver stórskuldug? Og hvað munu þessar skattahækkanir og gjaldahækkanir leiða af sér? Jú, lán heimilanna munu halda áfram að hækka af því að lánin eru verðtryggð og það er ekki farin sú leið sem við framsóknarmenn höfum talað fyrir um leiðréttingu á höfuðstóli lána heimilanna og lækka hann um alla vega 50%. Nei, hér er verið að hækka, auka enn frekar álögur á heimilin í landinu. Það er með ólíkindum hvað þessi ríkisstjórn er úr tengslum við fólkið í landinu og aðila eins og Hagsmunasamtök heimilanna sem hafa varið gríðarlega miklum tíma og krafti í sjálfboðavinnu til að koma með ábendingar til ríkisstjórnarinnar. En það er ekkert hlustað, ekki einu sinni í stórmálum sem þessum.

Frú forseti. Í einni umsögn frá Viðskiptaráði kemur fram, af því að hv. þingmenn Samfylkingarinnar tala dálítið mikið um millitekjufólkið og að það þurfi að gæta að hagsmunum þess, þessi niðurstaða, með leyfi frú forseta:

„Þegar tekið hefur verið tillit til allra jaðarþátta við greiðslu launa, þ.e. tekjuskatts, tryggingagjalds, framlags í samtryggingarsjóði lífeyriskerfis og tekjutengingu bótagreiðslna geta jaðarskattar á launagreiðslur numið allt að 60% eftir breytingarnar.“ — 60% jaðarskattar. — Ég held áfram, með leyfi frú forseta: „Þessar prósentur ná hæsta gildi sínu hjá millitekjuhópum, enda eru tekjutengingar bótagreiðslna hættar að hafa áhrif þegar laun verða mjög há.“

Og áfram segir:

„Háir jaðarskattar draga ekki eingöngu úr verðmætasköpun heldur auka þeir einnig hvata til undanskota. Það er því önnur hagræn staðreynd sem ber að hafa í huga. Því hærri sem jaðarskattar verða því meiri líkur eru á svartri atvinnustarfsemi með tilheyrandi búsifjum fyrir hagkerfið.“

Þetta er einmitt það sem er að gerast á Íslandi í dag. Þetta er það sem ég heyri að er að gerast í kringum mig og mitt fólk. Ég veit ekki hvort þingmenn Samfylkingarinnar hafi heyrt af því að hér stækkar neðanjarðarhagkerfið óðum sem hefur þær afleiðingar að tekjur ríkissjóðs minnka allverulega. Þar með er erfiðara að standa undir því norræna velferðarkerfi sem ríkisstjórnin hefur kennt sig við.

Frú forseti. Það er ekki hægt að kalla þessa ríkisstjórn norræna velferðarstjórn. Því miður hafa mistök undangenginna mánaða hjá hæstv. ríkisstjórn verið með þeim hætti að staða margra heimila er mjög erfið í dag. Við getum ekki klárað að ræða þetta mál sem snertir tekjuhlið fjárlaga án þess að ræða um fjárlagafrumvarpið. Hv. þingmenn guma af því að búið sé að minnka hallann af fjárlögum og áætlunum milli áranna 2009 og 2010. En hver er nú sannleikurinn í því? Hverjar eru áætlanirnar árið 2010? Er gert ráð fyrir að borga eina krónu af Icesave sem sömu þingmenn ætla að samþykkja milli jóla og nýárs? Nei. Það er ekki gert ráð fyrir því í útgjaldaramma fjárlaganna að greiða þarf 43 þús. milljónir í vexti af Icesave á næsta ári. Hvers lags fölsun á raunveruleikanum er hér um að ræða? Eru menn að reyna að fegra raunveruleikann? Það væri ágætt ef hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir gæti sagt mér af hverju menn gjaldfæra ekki vaxtagjöldin, fyrst þeir ætla að samþykkja Icesave-samkomulagið, vegna ársins 2010? Annað er sögufölsun. Ég stend í þeirri trú að meiri hluti stjórnarþingmanna ætli sér að samþykkja Icesave-samninga með 5,55% vöxtum og gríðarlega hárri skuldabyrði á íslenska þjóð til framtíðar litið. Hvað þarf þá að gera þegar þessir 43 milljarðar bætast við? Þarf ekki að skera miklu meira niður?

Hvað er verið að reyna að fela hérna? Það var afgreitt úr 3. umr. fjárlaga fyrir árið 2010 í hádeginu. Það gerir ekki ráð fyrir einni einustu krónu til greiðslu á Icesave-reikningunum, sem ég þykist vita að hæstv. forseti ætli að samþykkja. Ef það stendur til að samþykkja Icesave-samninginn er sjálfsagt að setja slíkt í forsendur fjárlagafrumvarpsins. Nei, það er ekki nógu flott fyrir ríkisstjórnina. Það lítur ekki nægilega vel út.

Frú forseti. Það er ekki hægt að bjóða íslenskum almenningi upp á þessi vinnubrögð. Það er ekki boðlegt, en því miður er það staðreynd að meiri hluti Íslendinga kaus þessa tvo flokka til að stýra þessu landi og við munum vissulega þurfa að bera einhverjar byrðar af því. Ég segi þetta af mikilli alvöru vegna þess að mistökin sem gerð hafa verið á undangengnum mánuðum eru með þeim hætti að það er að verða dýrt fyrir íslenskt atvinnulíf og íslensk heimili að búa við þessa ríkisstjórn, ríkisstjórn aðgerðaleysis, ríkisstjórn slagorða og ríkisstjórn samráðsleysis sem því miður missir fótanna í hverju einasta máli sem skiptir íslenskt þjóðfélag einhverju. Ég er að ræða síðasta frumvarpið sem ríkisstjórnin hefur keyrt í gegnum þingið með dyggum stuðningi stjórnarliða. Það er alveg ljóst að það er algert ráðherraræði yfir Íslandi í dag. Það er valtað yfir löggjafarvaldið í skipti eftir skipti. Við, þessir 29 þingmenn sem erum í minni hluta á Alþingi, fáum ekki neina aðkomu að ákvarðanatökunni. Meiri hlutinn skal ráða og það eru ekki þingmenn stjórnarliðsins, það eru ráðherrarnir, hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra. Þeirra er valdið.