138. löggjafarþing — 55. fundur,  19. des. 2009.

tekjuöflun ríkisins.

256. mál
[22:11]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta efh.- og skattn. (Birkir Jón Jónsson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Að sjálfsögðu verður að horfa til allra leiða til að afla aukinna tekna fyrir ríkissjóð og við höfum svo sem ekki útilokað það. En ég ætla að spyrja hv. þm. Magnús Orra Schram: Hvernig var málið búið þegar það kom í efnahags- og skattanefnd varðandi auðlegðarskattinn? Hverjar voru umsagnir aðila er snertu auðlegðarskattinn? Skattsins, bókhaldsfyrirtækja, Samtaka atvinnulífsins? Ég held að hv. þingmaður ætti að rifja það upp vegna þess að eins og það ákvæði kom inn í nefndina var það vitagagnslaust, það var óframkvæmanlegt að reikna þennan auðlegðarskatt. Þá spyr ég hv. þingmann í þessu ljósi: Finnst honum greinilegt að vandað hafi verið til verka við undirbúning frumvarpsins sem átti að keyra í gegn á 14 virkum dögum fyrir áramót? Þessi spurning hv. þingmanns um auðlegðarskattinn er nefnilega algjört lykilatriði til að sýna fram á það hversu vanbúið þetta frumvarp var. Það að keyra þetta mál á örfáum (Forseti hringir.) dögum í gegnum þingið getur ekki (Forseti hringir.) verið okkur sæmandi.