138. löggjafarþing — 55. fundur,  19. des. 2009.

tekjuöflun ríkisins.

256. mál
[22:26]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta efh.- og skattn. (Birkir Jón Jónsson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég tók eftir því að hv. þingmaður vandaði sig við að svara ekki þeirri spurningu sem ég lagði fyrir hana í ræðu minni. Hvernig stendur á því fyrst hv. þingmaður ætlar með stolti að greiða atkvæði með Icesave-samningunum á milli jóla og nýárs að ekki sé gert ráð fyrir því að ríkissjóður þurfi að bera kostnað vegna vaxtagjalda sem þarf að bókfæra á árinu 2010 upp á 42–43 milljarða kr.?

Stendur ekki til hjá hv. þingmanni að samþykkja Icesave-samningana á milli jóla og nýárs? Hvernig stendur þá á því að fjárlaganefnd þingsins er búin að afgreiða fjárlögin út án þess að gert sé ráð fyrir einni krónu vegna Icesave-samninganna? Ég spyr að þessu og það er náttúrlega erfitt verkefni fyrir hv. þingmann að þrífa upp skítinn eftir sinn eigin flokk vegna þess að á milli jóla og nýárs munum við horfast í augu við það hvernig Samfylkingin svaf á verðinum meðan hrunið átti sér stað og meðan Icesave-samningarnir bólgnuðu út.

(Forseti (ÞBack): Forseti biður þingmenn að gæta hófs í orðavali. (Gripið fram í: Nú?) Þó að orðið sé áliðið kvölds og komin helgi biður forseti þingmenn að temja sér hógværð í orðavali eftir sem áður. )