138. löggjafarþing — 55. fundur,  19. des. 2009.

tekjuöflun ríkisins.

256. mál
[22:43]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er auðvitað margt sem er hægt að gera athugasemdir við í ræðu hv. þm. Önnu Pálu Sverrisdóttur en ég verð að takmarka mig við eitt eða kannski tvö atriði. Ég ætlaði að nefna það að hérna hefði verið sagt að á þessum hræðilega tíma sem hún lýsti, þessum skelfilega stjórnartíma Sjálfstæðisflokksins, var um að ræða gríðarlega kaupmáttaraukningu allra tekjuhópa í samfélaginu. Fyrir því eru rannsóknir.

Í annan stað er hægt að nefna að við lok þessa tíma sem hún talar um sem þennan hræðilega tíma var sýnt fram á að jöfnuður væri mikill í evrópskum samanburði innan OECD. Gögn frá Hagstofunni frá 2007 sýna það. Það má líka nefna það til gamans að hættan á fátækt var minni hér en í flestum ríkjum OECD. Við vorum á pari við Slóveníu og Svíþjóð, ef ég man rétt, í efsta flokki (Forseti hringir.) þegar metið var hvort heimili á Íslandi eða í Evrópu væru í þeirri hættu að lenda (Forseti hringir.) í fátækt. Þetta var hinn hræðilegi tími.