138. löggjafarþing — 55. fundur,  19. des. 2009.

tekjuöflun ríkisins.

256. mál
[23:41]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tel að við hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir verðum seint sammála um það hvernig við túlkum þann stuðning við Icesave-samkomulagið sem ríkisstjórnarflokkarnir, sem hér ráða, bera alla ábyrgð á. Þeir bera alla ábyrgð á því hvernig samningurinn er útfærður. Við þeirri ábyrgð verða menn að gangast. Við verðum aldrei sammála um þetta atriði, það kemur ekki til greina. Það verður fróðlegt að sjá hvernig þingmenn stjórnarflokkanna koma til með að greiða atkvæði ef og þegar við tökum þetta frumvarp sem fjallar um ríkisábyrgðina um Icesave til atkvæðagreiðslu. Ég vonast til þess að menn greiði þar atkvæði eftir samvisku sinni og sannfæringu en ekki út frá því hvað forustumenn stjórnarflokksins segja þeim að gera. Ég ber það traust til þingmanna að þeir láti segjast, þeir skilji málið og hafni þessum nauðasamningum, eins og hv. þingmaður kallaði þá réttilega.

Ég vil endilega að við Íslendingar uppfyllum Maastricht-skilyrðin vegna þess að þau eru einfaldlega gæðastimpill á að hagkerfi okkar virki. Ég vil hins vegar alls ekki taka upp evru, alls ekki, og síst af öllu með því að ganga inn í ESB. Mér telst til að það væri að kaupa köttinn í sekknum. Hvernig er ástandið á Spáni? Hvernig er ástandið á Írlandi? (Gripið fram í: Grikklandi.) Og Grikklandi, svo við tölum nú ekki um það. Hvað ætlar ESB að gera fyrir Grikkland? Var ekki hugmyndafræði samfylkingarmanna í sumar að hefðum við Íslendingar verið í ESB hefði ESB komið okkur til bjargar? Hvað ætlar ESB að gera fyrir Grikkland? Ekki nokkurn skapaðan hlut. ESB vísar Grikkjum einfaldlega á Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn má hirða þá og ekki ætlar ESB að koma þessari litlu þjóð, að þeirra mati, til bjargar. Þeir hefðu heldur alls ekki gert það fyrir okkur Íslendinga. Þannig er einfaldlega staðreyndin og við skulum ekki láta samfylkingarmenn blekkja okkur inn í ESB með því að lofa okkur því með fagurgala (Forseti hringir.) að evran komi til með að leysa vandamál okkar. (Gripið fram í: Samfylkingarkonur.)