138. löggjafarþing — 55. fundur,  19. des. 2009.

tekjuöflun ríkisins.

256. mál
[23:43]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég verð enn einu sinni að gera athugasemd við það að við skulum hér undir miðnætti, rétt fyrir jól, vera að ræða jafnmikilvæg mál. Skattamál eru alltaf mjög mikilvæg, lífeyrismál og skattamál eru grundvöllur fyrir uppbyggingu ríkisins, velferðarkerfisins, skattkerfisins, umgjörð atvinnulífsins o.s.frv. Þetta ræðum við rétt fyrir miðnætti og nú eru 12 dagar og 16 mínútur þar til áramótin skella á og þá eiga öll þessi miklu frumvörp og öll þessi miklu ákvæði að taka gildi. Mjög lítill tími hefur gefist til umræðu um þessi mál. Ég verð bara að gera miklar og alvarlegar athugasemdir við svona vinnulag, frú forseti. Ég man eftir því að þegar ég bjó í Þýskalandi þá var reiknað með því að það tæki fjögur ár að koma breytingum á skattalögum og lífeyrismálum í gegn eftir umfjöllun hjá öllum aðilum allt í kring. Þá var búið að fara í hörgul út í framkvæmdina á viðkomandi lagasetningu, hvernig hún mundi virka o.s.frv. (ÖJ: Þú hefðir átt að kenna þínum eigin flokki þessi vinnubrögð.) Ég hef ýmislegt reynt að kenna, en gengið seint.

Ég fór í gegnum það áðan að þessar skattalagabreytingar eru allar í anda vinstri manna. Ég fellst alveg á það. Ég er alveg sammála því að fólk sem vill nota skattkerfið til þess að jafna kjör og stöðu fólks — vinstri menn vilja ekki bara nota skattkerfið til að afla tekna í ríkissjóð til að standa undir velferðarkerfinu og annarri þjónustu heldur vilja þeir líka nota það til að jafna kjör fólks og jafnvel stýra neyslu þess, hafa vit fyrir því hvort það eigi að borða sykur eða jafnvel fitu. Það er töluvert mikil forsjárhyggja hjá mörgum vinstri mönnum umfram held ég hægri menn, en ég ætla ekki dæma það almennt.

Hvert er eiginlega hlutverk skattkerfisins? Eins og ég nefndi þá er það í fyrsta lagi að afla tekna og nú róa menn lífróður til að afla tekna til að jafna eða laga stöðu ríkissjóðs sem er afskaplega döpur. Menn fara þar að mínu mati skynsamlega leið, annars vegar að skerða bætur og hins vegar að hækka skatta. Ég get alveg fallist á að það væri hvorki skynsamlegt að hækka bara skatta og eða bara að skera niður, því þá er hættan sú að niðurskurðurinn yrði allt of sársaukafullur, jafnvel til langframa.

Varðandi niðurskurð, svo ég komi aðeins inn á það á meðan ég man, frú forseti, þá er mjög mikilvægt að menn velji og hafni hvað þeir vilja skera niður og hvernig og menn þurfa að sjálfsögðu að skera niður með þeim hætti að sem minnst komi niður á þjónustunni og alls ekki ákveðinni þjónustu sem ekki má bregðast. Þess vegna þurfa menn virkilega að velja og hafna í niðurskurðinum og ég er ekki alveg viss um að það gangi eftir, enda hefur kannski ekki verið nægilega mikill tími til þess að vinna fjárlagafrumvarpið vel, en við erum náttúrlega ekki að ræða fjárlagafrumvarpið hér, heldur bara tekjuhliðina.

Ég tel afskaplega slæmt að leysa kreppu með skattlagningu. Kreppa felst í því að það er vantrú alls staðar. Það er skortur á frumkvæði. Það er vaxandi atvinnuleysi. Gjaldþrot og annað slíkt. Og að ætla sér í þeirri stöðu að ná í peninga til almennings og fyrirtækja er dálítið ankannalegt og skrýtið.

Spurningin er hvað menn geti gert í stað þess að skattleggja. Ýmsar leiðir eru til. Ein hefur t.d. ekkert verið rædd og það er skyldusparnaður. Það er reginmunur á skyldusparnaði og skattlagningu, frú forseti, vegna þess að með skyldusparnaði eru menn að byggja upp eign. Það er verið að skylda menn til að spara, skylda menn til að mynda eign og maður sem borgar ákveðnar upphæðir í skyldusparnað lítur allt öðruvísi á það heldur en ef hann borgar sömu upphæðir í skatt. T.d. ef hann stendur frammi fyrir þeim möguleika að fara til Noregs og fá sér vinnu þar, þá mundi hann ekki gera það ef hann væri með skyldusparnað og væri að mynda eign hér, hann mundi nýta það sem eignamyndun. En ef það væri skattur, færi hann hugsanlega til Noregs af því hann teldi að hann hefði tapað þessum hluta af eigum sínum eða tekjum. Þannig að ekkert hefur verið rætt um skyldusparnað í þessu máli.

Síðan er líka möguleiki á sölu eigna. Nú er ekkert voðalega sniðugt að selja ríkiseignir í kreppu, reyndar er búið að selja tvær eignir og hefur farið hljótt. Ég verð bara að vera jafnánægður með það, frú forseti, eins og ég var óánægður með það að standa að því að ríkisvæða bankana. Nú er búið að einkavæða tvo banka og þeir voru hreinlega seldir og það gefur ríkissjóði töluvert miklar tekjur. Þess vegna er staðan betri en hún var. Það er merkilegt, frú forseti, miðað við allan áróðurinn og allt það, að þetta gerist þrátt fyrir að Icesave sé ekki samþykkt. Það er alltaf verið að tala um að ekkert gangi upp af því Icesave hafi ekki verið samþykkt, en hellingur hefur gengið upp þrátt fyrir að Icesave hafi ekki verið samþykkt og verður vonandi ekki samþykkt. En það er önnur saga.

Hér erum við að ræða mjög marga þætti og ef maður lítur á þessi frumvörp öll þrjú, af því þetta er síðast af þessum þremur, þá er því í rauninni stefnt gegn atvinnu. Tryggingagjaldið er hrein aðför að vinnu, vegna þess að það gerir það dýrara fyrir fyrirtæki að hafa starfsmenn í vinnu af því að núna þarf að borga 8,6% í tryggingagjald og það eru umtalsverðir peningar, frú forseti. Fyrir mann sem er með 400.000 kr. á mánuði er í dag borgað 28.000 kr. tryggingagjald á mánuði og það hækkar um rúmar 6.000 kr. við þessa skattbreytingu. Þannig að það er verið að gera störfin í landinu dýrari fyrir fyrirtækin. Hvað gera fyrirtækin þá? Þau reyna að fækka störfunum fremur en hitt. Það getur líka vel verið að einhver fyrirtæki séu alveg á nippinu að fara á hausinn og þau fara þá á hausinn, þá gerist það sem ekki má, að atvinnuleysi eykst, kostnaður ríkissjóðs eykst og tekjurnar lækka. Það er örugglega ekki það sem menn ætla sér að gera. Það getur gerst svona óvart.

Svo er annað sem mér finnst menn ekki hafa athugað nógu vel og ég hef svo sem nefnt það áður, að allur andinn í þessum frumvörpum er gegn áhættufé, gegn kapítali. Það má vel vera að menn hafi andúð á kapítali, en samt eru menn að ákalla það til að fá það inn í fyrirtækin til að skapa störf, t.d. með nýsköpunarfrumvarpinu sem við erum búin að samþykkja. Þannig að menn ákalla annars vegar fjármagnið og sparka hins vegar í það með því að hækka skatta á hagnað, hækka skatta á arð, hækka skatta á söluhagnað og hækka skatta á leigu og vexti o.s.frv. Menn eru sem sagt að reyna að hrekkja áhættuféð og það er í rauninni búið að hrekkja það alveg nóg. Hrunið var gífurlegt áfall fyrir áhættufé. Mjög margir töpuðu öllu sem þeir áttu í hlutafé. Mikill fjöldi fólks og mjög háar upphæðir.

Hvað geta menn gert? Ég sagði áðan að menn gætu selt eignir. Hvaða eignir á ríkið og hvað skuldar ríkið? Mér finnst menn ekki hafa gert sér grein fyrir því. Ríkið skuldar t.d. í gegnum Tryggingastofnun ómælda fjármuni. Við hættum ekkert að borga lífeyri á morgun, það er alveg á hreinu, við skulum hafa það alveg á tæru, því það er skuldbinding, við verðum að borga lífeyri til allrar framtíðar. Það er bara skuldbinding. Þetta er mjög stór skuldbinding og mér er ekki kunnugt um að hún hafi verið reiknuð út. Auðvitað ætti að gera það. Inni í Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins, í B-deildinni, eru gífurlegar skuldbindingar sem ríkið á eftir að greiða. Þegar ég kannaði það síðast, þá voru það eitthvað um 200–300 milljarðar sem ríkið á eftir að greiða inn í B-deildina, þar sem lífeyrir er mjög góður, þ.e. ellilífeyrir, ekki örorkulífeyrir.

Síðan er það Icesave sem menn eru að hugsa um að taka yfir og þar fer tvennum sögum af upphæðinni. Sumir hafa núvirt hana með 5,55% vöxtum og fá út litla sæta tölu upp á 200 milljarða, en ef þeir núvirða það með einhverri lægri tölu, geta þeir fengið miklu, miklu stærri tölur og jafnvel 800, 900 milljarða ef þeir núvirða hana með lágum vöxtum. Þannig að það er spurning um núvirðingu í Icesave hvað sú skuldbinding er mikil.

Halli ríkissjóðs á yfirstandandi ári 2009 og 2010 og 2011 myndar líka skuldbindingu. Seðlabankinn myndaði skuldbindingu í látunum þarna rétt fyrir hrunið. Síðan eru laun opinberra starfsmanna um áramót sem ekki er hægt að segja upp, það er líka skuldbinding. Þannig að ríkið skuldar mjög víða.

En ríkið á líka eignir víða. Ríkið á t.d. hluta í tveimur bönkum. Ríkið á Landsbankann að stærstum hluta. Ríkið á Landsvirkjun og orkufyrirtæki. Ríkið á þjóðlendur. Svo á það fasteignir, skóla og sjúkrahús og vegi og sendiráð o.s.frv. Þannig að ríkið á mikið af eignum. Svo á ríkið skattfrestun í lífeyrissjóðunum. Þegar menn borga í lífeyrissjóð þá geta þeir dregið það frá skatti, fyrirtækin gera það hvort sem er alltaf og skattlagningin er geymd og þar með myndast ákveðin eign ríkisins inni í lífeyrissjóðunum. Þetta er líka eign.

Það sem við sjálfstæðismenn ákváðum að gera var að leggja til að náð yrði í eign ríkisins í séreignarsjóðunum og hún flutt til ríkisins. Kosturinn við þessa eign er sá að það er hægt að ná í hana án þess að hún sé verðfelld á einhvern hátt í kreppunni. Ef við færum að selja aðrar eignir ríkisins, skóla, sjúkrahús, Landsvirkjun eða eitthvað slíkt, þá er hætt við að ekki fengist hátt verð í núverandi stöðu. Þannig að okkur datt í hug að ná í þessa eign ríkisins og brúa þannig bilið í eitt ár og gott betur. Gott betur. Þá þyrftum við ekki að skattleggja fyrirtæki og heimili sem eru löskuð eftir hrunið og í rauninni ekki í stakk búin til að greiða aukna skatta. Eins og ASÍ benti á og kemur fram líka í nefndaráliti 1. minni hluta efnahags- og skattanefndar þá mun lágtekjufólk greiða lægri skatta að óbreyttum lögum ef menn fara þá leið að skattleggja séreignarsparnaðinn.

Í rauninni mundi myndast mikill kaupmáttur miðað við skattlagningu og sá kaupmáttur gæti hugsanlega komið atvinnulífinu í gang þannig að eftir árið væri það vel í stakk búið til þess að greiða þá skatta sem hugsanlega þarf að leggja á til þess að halda áfram.

Það er nefnilega heilmikið hagræði fólgið í því að forða fyrirtækjum frá gjaldþroti. Hagræðið felst í því að við gjaldþrot verður mjög mikið eignatjón. Það tapast þekking, það tapast tengsl, það tapast kúltúr og velvild fyrirtækisins o.s.frv. Oft og tíðum tapast umtalsverðar fjárhæðir við gjaldþrot. Menn eiga að reyna að forða því eins og hægt er. Ef hægt er að nota séreignarsparnaðinn til þess, þá er ég til í það. Það er ekki það að mig langi sérstaklega til að skattleggja séreignarsparnaðinn, en það gæti verið skynsamlegt í þeirri stöðu sem við erum í nú. Ég ætla að vona að ég þurfi ekki að heyra aftur að það sé verið að taka lán til framtíðar, það er verið að ná í eign sem ríkið fær í framtíðinni.

Svo ég fari í gegnum einstaka liði þess frumvarps sem við ræðum hérna í dag. Þetta eru ótrúlega mörg atriði og sum þeirra hafa fengið mikla umfjöllun og önnur minni. Til dæmis er verið að reyna að taka á því sem sumir sjá sem vandamál, ég sé það reyndar ekki sem vandamál, þegar fólk á gjaldeyrisreikninga. Menn eru að velta fyrir sér hvort ekki verði gengishagnaður af þessu. Jú, það er eflaust og menn hafa lengi reynt að finna einhverja leið til að skattleggja hann en það er mjög erfitt. Það er ekki hlaupið að því. Auðvitað má segja að maður sem á dollara græði ekkert frekar á því en Bandaríkjamenn sem eiga líka dollara. Menn gætu litið fram hjá því. Það eru geysilegar sveiflur á þessum gengisreikningum og mjög erfitt að skattleggja þá. Mér sýnist tillagan sem kom fram í frumvarpinu vera óframkvæmanleg og eins og meiri hlutinn gerir breytingartillögu um, það þýði það að reikningarnir verði ýmist skattaðir eða ekki skattaðir, þótt stundum verði hagnaður og stundum tap. Það eru nefnilega heilmiklar sveiflur í gjaldeyri. Gengið getur hækkað eitt árið, þá er skattað, svo lækkað næsta ár, þá kemur ríkinu það ekki við. Þótt maðurinn standi eftir tvö ár kannski með jafnmargar krónur og hann átti, er hann búinn að borga skatt. Mjög ósanngjarnt. Afskaplega ósanngjarnt.

Í 3. greininni verið að laga til hjá þeim sem reikna sér endurgjald. Mér finnst það hreinlega vera uppgjöf við það að fylgja því eftir að menn reikni sér endurgjald. Það er hreinlega uppgjöf að fara þá leið að blanda arðinum inn í það. Skatteftirlitsaðilar og skattyfirvöld áttu bara að fylgja því eftir að menn reiknuðu sér þau laun sem þeir hefðu fengið hjá óskyldum aðila. Nú, frú forseti, eru akkúrat 12 dagar til áramóta. Bara nákvæmlega núna og ekki einu sinni virkir, flestir eru frídagar. Klukkan slær úti, þetta er mjög athyglisvert.

Í 6. greininni er gert ráð fyrir því að hætta að ívilna veiðifélögum og kannski var kominn tími til. Svo eru hér nokkrar greinar um sameiningar fyrirtækja og hvernig eigi að fara með arð og annað slíkt við slíkar sameiningar eða samruna. Mjög flókin mál. Sá kafli væri efni í sérstaka umræðu ef menn ætluðu að vinna þetta af einhverju viti. Menn verða að treysta því að ráðuneytið hafi unnið þetta rétt og að endurskoðendur hafi rétta sýn á þetta. Það er einmitt hættan þegar menn hafa svona stuttan tíma til að fara ítarlega í hlutina.

Svo er aftur komið inn á reiknað endurgjald. Það er verið að heimila mönnum sem hafa miklar tekjur af sölu og framleiðslu listaverka og eigin verka að dreifa því á fleiri en eitt ár. Það náttúrlega verður sérstaklega mikið atriði núna þegar skatturinn er orðinn svona, sem kallað er á útlensku, „prógressívur“ eða ákafur þegar kemur upp í hærri tekjurnar, að ef menn fá t.d. nokkuð góðar tekjur eitt ár fyrir sölu á einhverju listaverki lendir það oft í háum skatti og svo eru þeir kannski tekjulausir næstu þrjú árin. Þetta gerist. Þetta er líka oft svona hjá sjómönnum.

Svo er náttúrlega fjallað þarna um 65. greinina, sem er alveg ótrúleg grein inni í skattalögum. Það er ákveðin bótaleið inni í skattkerfinu þar sem skattstjóri þarf að hafa vasaklúta þar sem hann er farinn að annast bótakerfið. Mjög skrýtið. Það eru ferns konar bótaflokkar inni í skattkerfinu, barnabætur, sjómannaafsláttur og vaxtabætur. Svo er 65. greinin þar sem menn geta fengið undanþágu ef þeir eiga bágt. Þetta á heima í félagsmálaráðuneytinu allt saman, nema kannski sjómannaafslátturinn, hann á hvergi heima að mínu mati.

Tími minn líður óðfluga. Nú er ég rétt kominn að breytingunni miklu um nýjan tekjuskatt. Ég reyndi að stilla þessu upp í excel og hef dálitla reynslu í því og þjálfun, en þetta tók mig alveg ótrúlegan tíma. Það er ekki einfalt mál, frú forseti, að reikna út þennan skatt. Ég held mér hafi tekist það á endanum. Það tók marga klukkutíma að átta sig á því hvernig hægt er með skynsamlegum hætti að reikna skatt af þessum tekjum. Það er sem sagt 37,2% staðgreiðsluskattur ef útsvarið helst óbreytt á næsta ári af tekjum frá 0 upp í 200.000. Síðan er 40,1% skattur frá 200.000–450.000. Svo er það 46,1% af tekjum yfir 650.000. 46,1% sem segir mér það að nærri helmingur af tekjunum fer í skatta. Þegar fólk fer að uppgötva þetta er ég ansi hræddur um að hrifningin verði ekki mikil, sérstaklega þegar maður tekur inn í dæmið að vaxtabæturnar og barnabæturnar eru skertar miðað við tekjur. Jaðarskattarnir geta því orðið þannig að fólk segi frekar við vinnuveitanda sinn: Heyrðu, ég hætti að vinna næturvinnu og eftirvinnu núna. Það mundi t.d. ekki vinna hér á þinginu eftir klukkan 12, heldur fara bara heim til sín, sérstaklega af því að fjórði í aðventu er á morgun, nei, bíddu, í dag, fyrirgefðu frú forseti, það er kominn fjórði í aðventu núna, bara til að hafa það alveg á tæru.

Svo er rætt um að hækka skatt á hagnað fyrirtækja og skatt á vexti. Og svo er hér ákveðinn nýr persónuafsláttur, en hann er ekki hækkaður eins og skyldi. (Forseti hringir.) En nú er tími minn búinn, frú forseti.