138. löggjafarþing — 55. fundur,  20. des. 2009.

tekjuöflun ríkisins.

256. mál
[00:10]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Það sem gerist með séreignarsjóðina og skattlagningu þeirra er það að ríkið nær í eign sem það á. Ríkið er í rauninni séreignarsparandi við hliðina á manninum sem er séreignarsparandi. Ríkið á alltaf 37,2% hlut í þeirri séreign. Þegar maðurinn svo tekur út afhendir hann ríkinu 37,2% af eigninni, þ.e. ef það er umfram skattleysismörk. Þá hefur ríkið ávaxtað sitt fé inni í séreignarsjóðnum. Það má eiginlega segja að ríkið sé bara að taka út sína séreign af því að það þarf á henni að halda núna og telur að hún sé arðbærari í því að halda fyrirtækjum lifandi. (Gripið fram í: Er það bara ekki eins og álfyrirtækin?) Nei, ég ætla nú ekki að fara að tala um það frumvarp, ég mundi helst vilja gleyma því og ég held að flestir ættu að reyna að gleyma því, og hafa aldrei séð það.

Svo varðandi neyslustýringuna, það er rétt að auglýsingar stýra neyslu, það er alveg hárrétt. En hinn venjulegi borgari á að vera með innbyggða bremsu gegn slíkri stýringu. En þegar stjórnvöld fara að stýra neyslunni, með því að stýra henni með verði héðan frá Alþingi, skattleggja þetta meira og skattleggja hitt minna, vegna þess að þeir hafa vit á því að einhver sjötugur karl eigi ekki að borða sykur og hann eigi ekki að borða feitmeti, finnst mér ansi hastarlegt. Þegar einhverjir þrítugir þingmenn þykjast hafa vit fyrir eldra fólki um hvað það eigi að borða, þar set ég mörkin. Mér finnst að menn eigi bara að ákveða matinn fyrir sjálfan sig en ekki fyrir eitthvert fólk úti í bæ.