138. löggjafarþing — 55. fundur,  20. des. 2009.

tekjuöflun ríkisins.

256. mál
[00:17]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Það er rétt að ég var í þessari fjármagnstekjuskattanefnd þar sem átti að taka á því að vextir voru skattfrjálsir. Algjörlega. Arður var ýmist tvískattaður, einskattaður eða ekki skattaður. Söluhagnaður var skattaður með þvílíkum ósköpum að enginn seldi neitt. Sá skattstofn var tómur. Húsaleiga var yfirleitt ekki talin fram af því að hún bar svo háan skatt.

Það var tekin ákvörðun í nefndinni um að hafa þetta einfalt, bara 10% yfir alla línuna, allar fjármagnstekjur. Síðan voru til þvottavélar, sem ég kallaði svo, til að þvo arð og breyta öllu í vexti af því að þeir voru skattfrjálsir. Ég held að það hafi verið gæfuríkt skref, ég verð bara að segja það, að koma með flatan tekjuskatt upp á 10% fjármagnstekjuskatt. Hann leysti a.m.k. úr læðingi óskaplega mikinn skattstofn sem óx og óx, er enn þá mjög sterkur og hefur gefið ríkissjóði miklu meiri tekjur en áður. Söluhagnaður var ekki til vegna þess að það seldi enginn neitt af því að menn þurftu að borga nærri 49% skatt af því. Ég ber ábyrgð á þessum fjármagnstekjuskatti.

Það var líka rætt í þeirri nefnd að hafa fjármagnstekjurnar eins og aðrar launatekjur og taka þá til frádráttar raunvexti, vaxtagjöld, tap á hlutabréfum, kostnað við húsaleigu og allt slíkt en það var reiknað út að þetta gæfi ríkissjóði núll tekjur, tekjurnar mundu hverfa. Vextir eru sjaldnast raunvextir, það er bara þannig.

Varðandi reiknaða endurgjaldið, auðvitað hefði skattstjóri getað tekið upp reglu eins og er verið að setja í lög núna. Hann hefði sjálfur getað búið til slíkar viðmiðunarreglur. Svo hefði hann getað tekið miklu fleiri stikkprufur því að ef skattstjóri tekur einn og gómar hann verða hinir hræddir.