138. löggjafarþing — 55. fundur,  20. des. 2009.

tekjuöflun ríkisins.

256. mál
[00:40]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Nú er nokkuð liðið á kvöld og ég veit ekki hvort ég næ sömu rökfestu og hinn ljósi þingleiðtogi sjálfstæðismanna hér í ræðupúlti á þessum tíma sólarhrings. Hann gerði að miklu umtalsefni greinargerð með frumvarpinu og ég verð að hryggja hann með því að ég samdi ekki þá greinargerð og get illa svarað fyrir það sem í henni stendur þó að ég sé sammála mörgu sem þar kemur fram.

Varðandi séreignarlífeyrissparnaðinn, sem ég hef rætt nokkuð oft í kvöld, finnst mér, hafa rök mín gegn því ekki verið þau að um skuldsetningu sé að ræða heldur lít ég svo á, og þingmaðurinn leiðréttir mig ef hann hefur annan skilning á þessu — að við séum þá að nýta í dag tekjur sem eiga að nýtast í framtíðinni þegar færri einstaklingar verða á vinnumarkaði miðað við þá sem eru utan hans.

Síðan erum við algjörlega sammála um að það væri aldeilis ágætt ef við gætum lækkað skatta eða haldið þeim óbreyttum og aukið ríkisútgjöld til að koma okkur út úr þessari kreppu en þær aðstæður eru ekki uppi. Við erum með alvarlega skuldsettan ríkissjóð og við þurfum að ná jöfnuði í ríkisfjármálum til að geta farið að greiða af skuldum okkar.

En ég skil ekki hvernig hv. þm. Illugi Gunnarsson getur afneitað því að við séum þá að nota í dag tekjur sem hefðu átt að nýtast í framtíðinni.