138. löggjafarþing — 55. fundur,  20. des. 2009.

tekjuöflun ríkisins.

256. mál
[01:17]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Til að gera langa sögu stutta vil ég segja að mér finnst að það verði að fara mjög varlega í notendagjöld, mjög varlega. Ég hygg að við verðum að gæta okkar mjög í heilbrigðiskerfinu og ég sé ekki fyrir mér að við getum aukið þar við notendagjöld. Varðandi skólagjöld á grunnskóla- og framhaldsskólastigi styð ég ekki neinar hugmyndir um það, það er alveg á hreinu.

Ég geri mér grein fyrir því að vandinn í ríkisfjármálunum er mikill. Ég óttast hins vegar að ef við förum þá leið að dýpka kreppuna, ef við förum þá leið að taka meira af heimilunum og fyrirtækjunum í dag til þess að rétta af skuldastöðu ríkisins, munum við lenda í því að vandinn í ríkisrekstrinum hverfur ekkert. Hann mun bara vaxa vegna þess að aðgerðir af þessu tagi eru til þess fallnar að minnka skattstofninn, minnka tekjurnar í þjóðfélaginu, minnka það sem er andlag skattlagningarinnar. Ég óttast að með því að fara leið ríkisstjórnarinnar í þessum efnum séum við að framlengja vandann að þessu leyti og þess vegna, þó að við minnkum hallann kannski bókhaldslega við fjárlagagerðina með þessum skattaaðgerðum, er ég í fyrsta lagi ekki viss um að þessar tekjur muni skila sér þegar á reynir. Í öðru lagi held ég að þær muni hamla því að hér verði meiri verðmætasköpun í samfélaginu, hamla því að fyrirtækin skili arði, hamla því að menn fjárfesti í nýjum atvinnutækifærum og ráði fleira starfsfólk og hamli því að laun hækki. En launin eru auðvitað bæði mikilvæg sem skattstofn fyrir ríkið og sem tæki fyrir hinn almenna mann að kaupa sér vörur og þjónustu sem líka ber skatt.

Ég held því að sú leið sem hér er lögð til muni leiða til dýpri samdráttar, (Forseti hringir.) samdráttar sem verður erfiðara fyrir okkur að komast út úr.