138. löggjafarþing — 55. fundur,  20. des. 2009.

tekjuöflun ríkisins.

256. mál
[01:24]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Ég gat þess um miðjan nóvember að miðað við verklagið sem viðhaft væri varðandi þessi stóru, miklu mál sem tengjast fjárlagafrumvarpinu öllu liti út fyrir að a.m.k. ríkisstjórnarflokkarnir væru ekki búnir að koma sér saman um leiðir til þess að ná endum saman í ríkisútgjöldum. Ég sagði að það virtist vera eins og þeir hefðu gefist upp í miðri á, alla vega fengjum við ekki að sjá neinar lausnir, ekki neinar útfærslur fyrr en þingið væri komið í tímaþröng með málið og þá helst í jólaönnunum og það yrði síðan keyrt í gegn.

Nú erum við komin fram yfir miðnætti, við erum komin inn í fjórða í aðventu, við erum komin inn í þann dag þegar við kveikjum á englakertinu, á fjórða kertinu. Það er að rætast sem við sjálfstæðismenn höfum verið að segja, það eru algjörlega óútfærðar tillögurnar hjá ríkisstjórninni. Sem betur fer breyttust þó tillögurnar eitthvað til batnaðar en engu að síður er þetta sorgardagur í íslenskri fjárlagasögu þar sem haldið var áfram með vanhugsaðar tillögur ríkisstjórnarinnar. Virðisaukaskattinum er dúndrað inn með tillögum upp á þrjú þrep, þeim er síðan fækkað í tvö eftir mikinn þrýsting. Menn hefðu betur farið að hlusta fyrr. Núna er það sama upp á teningnum varðandi tekjuskattinn, sem er í raun ekki síður alvarlegt því að við erum að fara hér inn á mjög gamlar, fornar, lúnar slóðir.

Af hverju segi ég það? Ég segi það út af því að mér finnst þetta vera gamaldags, hallærisleg, hugmyndafræðileg kreddupólitík sem við erum að glíma við og þetta hefur ekkert með hrunið að gera. Menn tala hins vegar þannig að þetta hafi allt með hrunið að gera af því að þeir hafa gefist upp á verkefninu til þess eins að knýja fram gamaldags hallærislegt skattkerfi, skattkerfi sem ég hélt að við hefðum þó sammælst um á undanförnum árum, allir flokkar, að við vildum hafa einfalt, gegnsætt. Menn ættu að kynna sér það og tala rétt og satt, segja fólki það sem okkur hefur því miður ekki tekist að segja almennilega við það þannig að það skilji það, að hér er um mörg skattþrep að ræða. Þeir einstaklingar sem ekki hafa sömu tekjur borga ólíkan tekjuskatt. Það er út af þeim innbyggðu leiðum, innbyggðu kvörðum eins og varðandi persónuafsláttinn sem maðurinn sem er með 150 þúsund krónurnar í laun á mánuði borgar mun minna í skatta en sá sem hefur 250–350 þúsund eða meira. Þannig er það í þessu kerfi.

Þess vegna er það alveg ótrúlegt að menn skuli fara þá leið sem fara á til þess eins að kosta miklu til og að öllum líkindum mun það takmark ríkisstjórnarinnar ekki nást, það hafa mér færari menn sagt og eru m.a. í mínum þingflokki og annars staðar, að reyna að brúa bilið í fjárlagagerðinni, af því að þetta er vanhugsað. Ég hefði haldið að ef menn ætluðu að fara þessa leið, að hækka skatta, að gera það þá einfaldlega út frá því kerfi sem við búum við í dag og breyta persónuafslættinum síðan í samræmi við þær kröfur sem uppi eru. En það er ekki verið að gera það heldur finnst mönnum einhvern veginn að það þurfi bara að breyta öllu af því að það má ekkert vera eins og á þeim tíma sem Sjálfstæðisflokkurinn ógurlegi réð ríkjum. Það er bara verið að breyta hlutum til þess að breyta einhverju, það er hægt að taka mýmörg dæmi um það. Menn fara af stað í einhverju óðagoti, algjörlega vanhugsað, með óútfærðar hugmyndir. Þá er hægt að taka fæðingarorlofið sem dæmi þar sem menn voru reknir til baka með upphaflegar tillögur.

Því miður hefur það ekki gerst í þessu máli varðandi tekjuskattinn að menn hafi áttað sig á því að sú leið sem verið er að fara er leið stöðnunar, við munum fara krókaleiðir út úr kreppunni í staðinn fyrir að fara nokkuð beina leið ef menn hafa kjark og þor til þess að taka á í ríkisfjármálum.

Hvað gera menn? Það er nefnilega óþægilegt að segja: Við ætlum bara að einbeita okkur að skattahækkunum. Það geta vinstri menn ekki sagt hreint út heldur þurfa þeir að setja það í einhvern spunabúning sem heitir núna „blönduð leið“. Þetta frumvarp og öll fjárlagagerðin er ekki blönduð leið frekar en vatn með klökum í. Þetta er engin blönduð leið. Hv. þm. Birgir Ármannsson nefndi réttilega að árið 2007 vorum við með fjárlagafrumvarp þar sem við jukum ríkisútgjöld um 20% að raunvirði. Þá stóð ekki á stjórnarandstöðunni frekar en fyrri daginn að koma með tillögur um enn meiri aukningu ríkisútgjalda. Menn glotta hér þegar þeir tala um aukningu ríkisútgjalda, væntanlega út af fögrum, háum gylliboðum fyrri tíma og hugsa til betri tíma í fjárlagagerðinni.

Það var líka fyrir rúmlega ári síðan sem þáverandi ríkisstjórn samfylkingar- og sjálfstæðismanna — það er reyndar mikið undrunarefni að menn hafa verið að koma úr felum og farnir að viðurkenna það í Samfylkingunni að þeir voru í þeirri ríkisstjórn — lagði fram fjárlagafrumvarp 1. október. Eftir að frumvarpið var lagt fram stóð þáverandi ríkisstjórn í meiri niðurskurði í ríkisfjármálum en sá niðurskurður er sem núverandi ríkisstjórn býður upp á. Sá niðurskurður sem menn tala hér um er allt niðurskurður í einhverjum felubúningi. Það er hægt að taka á málum í utanríkisráðuneytinu og í öðrum ráðuneytum. Það er hægt að taka á málum í menntamálaráðuneytinu, í iðnaðarráðuneytinu.

Það hefur ekki verið tekið á ríkisfjármálum sem skyldi. Ég gat reyndar um það í umræðunni um Icesave en ekki síður varðandi fjárlagafrumvarpið að ég sakna þess að menn hafi ekki notað, þvert yfir allar flokkslínur, það pólitíska tækifæri, það samfélagslega tækifæri, að stokka upp í þeirri hugmynda- og aðferðafræði sem býr að baki fjárlagagerðinni í dag. Ég hvet fólk til þess að skoða til að mynda tillögur frá fjárlaganefnd sem samþykktar hafa verið um aukningu ríkisútgjalda. Mér finnst þetta vera gamaldags. Mér finnst þetta ekki vera ákall um nýja nálgun, eins og verið hefur í samfélaginu, eða ábyrga nálgun í þá veru að þora að taka á ríkisfjármálunum af meiri kjarki og fara nýjar leiðir því að þetta snýst nefnilega líka um að fara nýjar leiðir og aðrar leiðir. Þar finnst mér ríkisstjórnin hafa gefist upp á verkefninu. Til að mynda hefur hæstv. forsætisráðherra sagt um tillögur okkar sjálfstæðismanna, tillögur sem fela það í sér, eins og hv. þm. Ögmundur Jónasson kom hér inn á áðan, að það þarf að taka á þessu núna af því að þetta eru tímabundnir erfiðleikar. Við eigum nokkur erfið ár fram undan, eins og hv. þingmaður orðaði það hér áðan, nokkur ár erfið fram undan. Á þessum árum megum við ekki setja hlemm ofan á allt, ofan á heimilin, ofan á fyrirtækin, og stöðva viðleitni fólks og fyrirtækja til þess að bjarga sér á þessum erfiðu árum sem eru núna og við þurfum að takast á við.

Þess vegna ber okkur í stjórnarandstöðunni skylda til þess að koma ekki hingað og segja bara: Við erum á móti, eins og var í hinni klassísku stjórnarandstöðu. Það reynir nefnilega á okkur í stjórnarandstöðunni að sýna öðruvísi stjórnarandstöðu en var hér á árum áður, algjörlega öðruvísi stjórnarandstöðu, (Gripið fram í.) og koma með nýjar tillögur. Sumir hafa klappað okkur á bakið og sagt: Þetta er allt í fína lagi, þetta er rosalega fínt hjá ykkur, sjálfstæðismenn. Aðrir í stjórnarmeirihlutanum hafa ekki einu sinni nennt að ræða það, þar á meðal hæstv. forsætisráðherra. Eina framlag hæstv. forsætisráðherra til tillagna okkar sjálfstæðismanna var þegar hún sagði: Sjálfstæðismenn, þið eruð haldnir þráhyggju.

Þráhyggjan felst í því að við segjum nei. Við erum ekki alltaf á móti skattahækkunum, síður en svo, en við teljum skattahækkanir á þessu stigi málsins ekki vera boðlegar, þær eru ekki boðlegar. Þess vegna höfum við lagt mikla vinnu í að bjóða upp á aðrar leiðir sem kalla reyndar á kjark, sem kalla á þor, þor til að fara á móti öllum hagsmunaaðilunum, þor til fara á móti ASÍ, sem er eins og vaktmaður við hlið forsætisráðherra. Það má ekki hrófla við neinu sem tilheyrir lífeyrissjóðunum. Það má ekki fara aðrar leiðir sem við höfum bent á, t.d. varðandi inngreiðslur á séreignarsparnaðinn, sjóð sem þegar er búið að greiða skattinn af, skattinn okkar. Skattur ríkisins hefur þegar verið greiddur inni í þeim sjóðum.

Þetta þýðir 75 milljarða til ríkisins, 40 milljarða til sveitarfélaganna. Ég upplifði það núna í mínu kjördæmi, að sveitarfélagið Álftanes er að verða gjaldþrota. Ég held að það væri ábyrgðarhluti að segja nei við þeirri leið sem við bjóðum upp á til þess að hjálpa sveitarfélögunum sem axla mikla ábyrgð og uppfylla miklar kröfur um lögbundnar skyldur í hinum ýmsu lögum, hvort sem það er á sviði grunnskólamála eða heilbrigðisþjónustu, öldrunarþjónustu, að hjálpa þeim ekki núna einmitt þegar við erum að fara í gegnum þessa erfiðleika sem verða tímabundnir ef rétt er á málum haldið.

Þetta snýst um að við bjóðum upp á val og við sjálfstæðismenn bjóðum upp á val, val sem hefur ekkert verið rætt hérna. Menn hafa ekki þorað að gera neitt annað en að fara heim í réttirnar, það er búið að smala fénu saman í dilkana. Það er komið heim og það má ekki ræða nýjar eða aðrar leiðir til þess að komast hjá skattahækkunum. Ég segi það að á þessum tímum eru þær ekki réttar og þær eru gamaldags, þær eru hallærislegar og það er ekki einu sinni krefjandi hugsunarháttur sem býr að baki þessum skattahækkunum.

Við höfum bent á fleiri mál, eins og varðandi aflamarkið. Við höfum sagt að við eigum að halda okkur við þær framkvæmdir sem boðaðar hafa verið til þess að reyna að halda áfram uppi atvinnustigi, sérstaklega í þeim atvinnugreinum sem eiga mjög undir högg að sækja.

Er þetta hægt? Já, þetta er hægt, við höfum sýnt fram á það þó að við höfum ekki fengið mikla umræðu um það. En það er líka freistandi að líta til einhverrar einingar sem er stór, veltir miklu og stendur frammi fyrir svipuðum erfiðleikum og ríkisvaldið, þótt í minni mæli sé. Það er eðlilegt að líta til Reykjavíkurborgar. Hvað er Reykjavíkurborg að gera? Reykjavíkurborg gerir allt til þess að koma í veg fyrir að hækka útsvarið, hún vill verja grunnþjónustuna, þó að það sé ákveðin hagræðing innan grunnþjónustunnar, og koma í veg fyrir að útsvarið verði hækkað. Það er hægt ef menn fara leið samstöðu og samvinnu. Upp á það hefur ekki verið boðið af hálfu ríkisstjórnarinnar. Það hefur ekki verið í boði í þessu máli eða neinum öðrum að leita samstöðu eða samvinnu. Verklagið og verkstjórnin er hjá Samfylkingunni.

Þess vegna vil ég ítreka það, af því að sumir hv. alþingismenn eru komnir hingað í salinn, að það er og var líka í boði að fara nýjar leiðir varðandi fjárlagagerðina, að fara nýjar leiðir til að mynda varðandi sameiningu stofnana, varðandi hagræðingu í ríkisfjármálum, hvort sem það er á sviði landbúnaðarmála, heilbrigðismála eða menntamála sem mörgum okkar eru mjög hugleikin hér í þessum sal.

Við sjálfstæðismenn ítrekum að við teljum það liggja alveg ljóst fyrir að við skattleggjum okkur ekki út úr kreppunni. Ég gat um það áðan að vinstri menn eru svolítið hræddir við að segja: Við ætlum bara að fara leið skattahækkana. Við sjálfstæðismenn sögðum það í kosningunum í vor: Vinstri stjórn kallar á auknar skattahækkanir og það verulegar. Við máttum ekki segja þetta. Það var reyndar margt sem við máttum ekki segja í kosningabaráttunni en við máttum bara alls ekki nefna að vinstri stjórn er ávísun á skattahækkanir og ekki bara einhverjar skattahækkanir heldur verulegar. Þau munu koma með nýja skatta, það er að koma á daginn. Hæstv. forseti man eflaust hvernig eignarskatturinn byrjaði. Hann byrjaði sem stóreignarskattur, var síðan færður í svonefndan eignarskatt sem varð á endanum ekkert annað en ekknaskatturinn svonefndi. Þannig byrjaði ekknaskatturinn. Nú heitir þetta auðlegðarskatturinn. Nýir skattar. Við sjálfstæðismenn sögðum: Vinstri menn munu koma með þessa nýju skatta og þeir gera það. Allt kemur þetta fram.

Hvað sagði þá hæstv. fjármálaráðherra? Ekki hlusta á sjálfstæðismenn, þetta er ekkert annað hræðsluáróður, það er verið að koma fram með gamlar klisjur. En þessar gömlu klisjur hafa reynst sannar og það í raun á skemmri tíma en mig hefði nokkurn tíma grunað. Stórfelldar skattahækkanir, nýir skattar, gamlar lummur, 20 ára gamlar lummur, alveg eins og það eru nú 20 ár frá hruni kommúnismans. Sumir hafa viljað kalla þetta nýkommúnisma, ég nenni ekki að fara í slíkar málalengingar. Mér finnst þetta bara gamalt, mér finnst þetta ekki krefjandi, mér finnst þetta ekki vera frjó hugsun á þeim tíma sem við þurfum að leita allra leiða til þess að koma í veg fyrir að hér verði algjör stöðnun í atvinnulífinu. Við þurfum að ýta undir það að fyrirtækin, lítil og meðalstór fyrirtæki, hvað þá stóru fyrirtækin, fari að ráða til sín fólk að nýju, fari að sjá ljósið við endann á göngunum. Þau gera það ekki með þeim stórfelldu skattahækkunum sem ríkisstjórnin boðar. Það er eins og menn hafi einfaldlega gleymt uppruna sínum hér því að fyrir rúmum 1100 árum síðan flúðum við Norðmenn út af skattaáþján þáverandi Noregskonungs. Það er eins og sá kóngur hafi komið hingað til landsins nema menn eru ekki eins hárprúðir hér.

Röksemdafærslan hjá vinstri mönnum og ríkisstjórninni snýst um að segja að þetta sé blönduð leið, skattahækkanir og niðurskurður. Ég held að ég hafi sagt það og ítreka nú að þetta er engin blönduð leið, þetta er eins og glas með vatni og klökum, þetta er ekki blandaðra en það. Þetta er að mínu mati uppgjöf og það er hægt að fara aðrar leiðir.

Ég vil líka minna menn á að í kosningunum 1999, í kosningunum 2003, hver voru þá ein mikilvægustu málin sem menn töluðu um varðandi fjármál heimilanna? Það var að fólk gæti bjargað sér sjálft. Það var að minnka jaðarskattana. Þá var ein helsta krafan hjá ungu fólki með meðaltekjur að koma sér upp húsnæði, að minnka jaðarskattana. Og það tókst. Hægt og rólega frá árinu 2003 minnkuðu jaðarskattaáhrifin. Hvað er vinstri stjórnin að gera núna? Hún er dúndra þeim inn aftur og er að koma á jaðarsköttum til þess að uppfylla einhverjar fantasíur embættismanna í fjármálaráðuneytinu. Við erum að hverfa til baka til gamalla tíma. Allt er þetta gert með skírskotun í að það var hrun hér fyrir ári síðan. Það er alveg rétt. En ekki bjóða mér upp á það að við þurfum að breyta öllu skattkerfinu, kúvenda því, það er mjög kostnaðarsamt, til þess að hækka skatta og brúa fjárlagabilið. Það er ekki þannig og menn hafa sýnt fram á að það sé algjörlega óþarfi.

Frú forseti. Ég talaði um það í byrjun að við værum komin inn í fjórða sunnudag í aðventu, englakertið, við ætlum að kveikja á því núna þegar líða tekur á daginn. Gömul þýsk þjóðsaga segir að þetta fjórða kerti sé líka kallað vonarkerti. Ég leyfi mér halda fram að með tillögum okkar sjálfstæðismanna höfum við einmitt kveikt ákveðna von um að hægt sé að fara aðrar leiðir. Við eigum ekki að slökkva á þeirri von. Við eigum, okkur ber skylda til þess, þvert á flokka, að fara sameiginlega yfir alla þá möguleika og allar þær leiðir sem stuðla að því að komast hjá því að setja stöðnunarstimpil á atvinnulífið og fjölskyldurnar og stöðnunin mun þá vara miklu lengur en þörf er á. Þess vegna finnst mér að við eigum að halda í vonina, við eigum að leyfa þessu kerti sem við ætlum að kveikja á nú síðar í dag að loga og lifa lengi og reyna að fara mun betur yfir þær tillögur sem fyrir liggja. Þetta eru vondar tillögur, þær slökkva frekar neistann en kveikja hann.