138. löggjafarþing — 55. fundur,  20. des. 2009.

tekjuöflun ríkisins.

256. mál
[01:46]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Skattkerfið var þó ekki veikara en það að Samfylkingin, vel að merkja með Sjálfstæðisflokknum sem hún hefur reyndar verið að kannast við í dag, þá ríkisstjórn, var til í yfirboð á fjárlögunum árið 2007. Á grundvelli skattkerfisins sem hv. þingmaður gagnrýnir svo mjög gat Samfylkingin engu að síður aukið útgjöld ríkisins um 20% að raunvirði. Skattkerfið var ekki gallaðra en það. Trú Samfylkingarinnar á skattkerfið var ekki minni en svo að hægt var að fara í risayfirboð.

Þarna erum við í grundvallarsjónarmiðum ósammála í þessu öllu saman, við í Sjálfstæðisflokknum og Samfylkingin. Við teljum að hærri skattar, sérstaklega í því árferði sem er núna, muni ekki leiða til þeirrar tekjuöflunar fyrir ríkissjóð sem menn binda vonir við í öllu þessu. Þetta er að mínu mati fals og þar fyrir utan er ekki verið að taka á niðurskurðinum. Og talandi um fjölskyldusilfrið, ef menn ætla að koma hingað aftur og tala um fjölskyldusilfrið eftir alla þá umræðu sem við sjálfstæðismenn höfum verið að reyna að taka um þetta mál, hafa menn ekki einfaldlega skilið málið. Það er þannig að ríkissjóður á þetta fjármagn sem þegar er búið að setja inn í séreignarsparnaðinn.

Ég bendi hv. þingmanni á að ríkisstjórnin til að mynda hvetur einstaklinga til að taka út séreignarsparnað sinn og meira að segja hækkar þetta upp í 1,5 milljónir núna undir jólin. Af hverju er það? Er ríkisstjórnin að hvetja fólk til þess að eyða fjölskyldusilfrinu? Nei, ríkisstjórnin er að reyna að hjálpa fólki til að brúa bilið á þessum erfiðu tímum og það er það sem við þurfum að gera. Við þurfum að komast í gegnum þessa erfiðu tíma, við þurfum að komast hratt í gegnum þá til þess að við getum farið að byggja upp hagvöxt að nýju.