138. löggjafarþing — 55. fundur,  20. des. 2009.

tekjuöflun ríkisins.

256. mál
[01:48]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Allt þetta tal um útópískar hugmyndir sýnir að menn eru ekki reiðubúnir til að skoða nýjar leiðir. Menn eru ekki reiðubúnir til að skoða nýjar leiðir, aðrar leiðir, sem ekki bara við í þingflokki sjálfstæðismanna höfum verið að telja upp og sýna fram á að eru raunhæfar, heldur hafa líka hagfræðingar, lögfræðingar og fleiri í samfélaginu sagt: Förum þessa leið meðan við erum að komast yfir þessa erfiðleika núna sem vonandi verða tímabundnir.

Já, ég er alveg sammála því og ég hefði gjarnan viljað fá tíma og tækifæri til þess að skoða kerfið heildstætt, hvort sem við erum að tala um sjómannaafsláttinn, auðlegðarskatt eða eitthvað fleira. Við fengum bara ekki tækifæri til þess, ríkisstjórnin hafði ekki kjark í það eða löngun eða döngun til þess að bjóða fleirum en innmúruðum og innvígðum samfylkingarmönnum og vinstri grænum við þetta borð til að reyna að leysa ríkisfjármálin. Það hefur ekki verið gert í Icesave-málinu, það hefur ekki verið gert í neinum öðrum málum að fá okkur til liðs (Forseti hringir.) við ykkur í erfiðum málum. Þess vegna er komið í svona mikið óefni með þessi ömurlegu mál sem við höfum verið að ræða hér í dag. (Gripið fram í: Þú ert svo neikvæð.)