138. löggjafarþing — 55. fundur,  20. des. 2009.

tekjuöflun ríkisins.

256. mál
[01:50]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og skattn. (Helgi Hjörvar) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu á þessari aðventustund okkar. Hv. þingmanni þóttu þær tillögur sem hér eru fram færðar gamaldags, þetta væru gamlar, lúnar götur og hallærislegar. Ég vil nú segja það að ég held að það sé einmitt ágætur tími til þess að vera dálítið gamaldags. Ég held að það sé full ástæða fyrir okkur, eftir það sem á undan er gengið, að huga betur að varfærnissjónarmiðum, að íhaldssemi nokkuð meiri en við tileinkuðum okkur þegar við keyrðum sem hraðast eftir brautinni.

Og af því að hv. þingmaður nefndi það að áar okkar hefðu kannski fyrir 1.100 árum flúið skatta í Noregi, hlýtur maður um leið að spyrja: Hefur þeim ekki farnast nokkuð betur efnahagslega með sína háu skatta? Hefur ekki nágrönnum okkar farnast nokkuð betur með sín margþrepaskiptu skattkerfi? Hvaða efnislegu athugasemdir hefur hv. þingmaður við þrepaskipt skattkerfi? Rak ekki Sjálfstæðisflokkurinn árum saman margþrepaskipt skattkerfi með alls kyns flækjum og útúrdúrum? Hefur það nokkurn tíma vafist fyrir Sjálfstæðisflokknum? Er um að ræða stórfelldar skattahækkanir í þessu frumvarpi? Nei, það er ekki. Hér er verið að verja alla sem eru undir 270 þúsundum fyrir hækkunum og aðrir taka bara tiltölulega litlar hækkanir. Telur hv. þingmaður að við getum bara labbað út úr hruninu án þess að nokkur þurfi að axla nokkuð? Er það ekki full nútímaleg hugsun?