138. löggjafarþing — 55. fundur,  20. des. 2009.

kjararáð.

195. mál
[02:04]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og skattn. (Helgi Hjörvar) (Sf):

Virðulegur forseti. Það er ánægjulegt að umræðunni sem fram fór hér áðan skyldi ljúka með þessum mörgu brosum í salnum. Það mál sem við fjöllum um nú er flutt af hæstv. ríkisstjórn með það að markmiði að framlengja lög um kjararáð sem sett voru fyrir ári og miðuðu einfaldlega að því að ekki yrði um það að ræða að alþingismenn, ráðherrar og æðstu embættismenn ríkisins tækju launahækkanir á yfirstandandi ári. Þær forsendur er allar áfram til staðar þannig að eðlilegt var talið að framlengja þessi ákvæði.

Í meðförum nefndarinnar hefur málið þó tekið nokkrum breytingum og þær eru fyrst og fremst þrjár, en athygli mín hefur verið vakin á því að það er að finna prentvillu í nefndaráliti sem gerir það að verkum að það þarf að prenta upp aftur fyrir 3. umr. sem fer fram á mánudag.

Breytingarnar eru í fyrsta lagi þær að fortakslaust bann við hækkunum nær einvörðungu til alþingismanna og ráðherra en unnt er að fella einstaka úrskurði um aðra til að leiðrétta með tilliti til innra samræmis og annað þess háttar, en auðvitað er ljóst að engar forsendur eru fyrir almennum launahækkunum hjá þessum hópi frekar en öðrum hópum í samfélaginu og ekki þess að vænta að svo verði.

Í annan stað er gildistíminn styttur eilítið þannig að hann er ekki út næsta ár, árið 2009, heldur er hann til jafnlengdar kjarasamningnum. Það helgast einfaldlega af því að þessi launafrysting tekur mið af því sem menn hafa farið í á almennum markaði. Menn hafa þar samið um að ekki verði gerðar breytingar á gildandi kjarasamningum fram í nóvember á næsta ári. Það er því eðlilegt að þessi ákvæði gildi til jafnlengdar hinum almennu kjarasamningum og afstaða verði tekin til framhaldsins þegar þar að kemur og við sjáum betur hvernig efnahagsástand er í samfélaginu og launaþróun almennt.

Meiri hluti nefndarinnar leggur til að með þessum áorðnu breytingum verði frumvarpið samþykkt.