138. löggjafarþing — 55. fundur,  20. des. 2009.

kjararáð.

195. mál
[02:06]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Helga Hjörvar fyrir framsögu með nefndaráliti efnahags- og skattanefndar. Ég velti fyrir mér hvort það er mat hv. þingmanns og meiri hluta nefndarinnar að það hafi verið, ef við orðum það svo, einhver hætta á því að kjararáð tæki ákvörðun sem fæli í sér launahækkun til alþingismanna, ráðherra, dómara og annarra embættismanna ríkisins. Er eitthvað í þeim forsendum sem kjararáð á að vinna út frá sem hefði að óbreyttum lögum kallað á það að kjararáð kæmist að þeirri niðurstöðu að hækka ætti laun alþingismanna, ráðherra, dómara og æðstu embættismanna ríkisins? Án þess að hafa farið ofan í þessar forsendur, og ég játa ég að ég hef ekki fylgst náið með framgangi þessa máls, hefði ég haldið að aðstæður væru þannig í þjóðfélaginu að kjararáð hefði engar forsendur til að taka einhverja ákvörðun um að hækka laun þessara hópa. Ég játa að að ég þekki þetta ekki gjörla en einhvern veginn hefði ég haldið að launaþróun og aðrir áhrifavaldar á ákvarðanir kjararáðs væru allir í þá átt annaðhvort að láta laun þeirra hópa sem hér um ræðir standa í stað eða hugsanlega lækka þau eftir því sem heimilt er. Kannski gæti hv. þm. Helgi Hjörvar upplýst okkur um þetta.

Í annan stað vildi ég spyrja hv. þm. Helga Hjörvar svona grundvallarspurningar í þessu sambandi. Nú er þetta ekki í fyrsta sinn sem Alþingi hefur á síðustu árum með lagasetningu haft áhrif á eða reynt að bregðast við ákvörðunum kjararáðs eða (Forseti hringir.) forvera þess, er þetta fyrirkomulag nægilega gott ef við þurfum alltaf að vera að koma með lagasetningu til að bregðast við því?