138. löggjafarþing — 55. fundur,  20. des. 2009.

kjararáð.

195. mál
[02:08]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og skattn. (Helgi Hjörvar) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég get tekið undir það með hv. þingmanni að það er erfitt að ímynda sér að það sé mikil hætta á því, jafnvel þó að þetta frumvarp yrði ekki að lögum, að Kjaradómur hefði nokkrar forsendur til að ráðast í ákvarðanir um hækkanir fyrir þessa hópa. Það er þó auðvitað þannig, eins og hv. þingmaður þekkir, að þær stundir hafa komið í þessum sal að það hafa komið úrskurðir um launakjör þeirra sem hér undir falla sem hafa komið mönnum nokkuð á óvart.

Ég hygg að sjónarmið ríkisstjórnarinnar sé fyrst og fremst það að allur sé varinn góður og að meiri hlutinn geti út af fyrir sig tekið undir það, með hliðsjón líka af þeim miklu byrðum sem almenningur er að axla í gengishruninu í miklum hækkunum skulda, í lækkunum launa og nú í skattahækkunum, að við þær erfiðu aðstæður í samfélaginu sé rétt að taka af öll tvímæli um pólitískan vilja okkar í málinu. Ég held að við eigum ekki að draga ályktanir um að þetta sé gott eða vont fyrirkomulag út frá þeim ráðstöfunum sem við þurfum að grípa til núna í kjölfar efnahagshruns. Það eru auðvitað svo einstakar aðstæður þegar yfir heiminn ríður fjármálakreppa, sem skeður á 100 ára fresti, að ég held að þær sérstöku ráðstafanir sem við þurfum nú að grípa til á ýmsum sviðum gefi ekki tilefni til almennra lærdóma fyrir lengri tíma.