138. löggjafarþing — 55. fundur,  20. des. 2009.

kjararáð.

195. mál
[02:20]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að mjög mikilvægt sé að við vöndum okkur við notkun hugtaka í þessari umræðu. Það er ekki rétt að ríkisstjórnin beiti sér fyrir launalækkunum. Hins vegar er stefnt að því að draga úr launaútgjöldum. (Gripið fram í.) Það er gert með margvíslegum skipulagsbreytingum innan opinberrar þjónustu og síðan hafa menn horft til ýmissa kjara sem ekki eru samningsbundin, einstaklingsbundinna kjara, og þeim hefur verið breytt, iðulega eru það kjör sem bundin eru í ráðningarsamninga. Það hefur ekki verið gengið á kjarasamningsbundin kjör. Það hefur ekki verið gert.

Hins vegar er alveg rétt að tilteknir hópar eins og þingmenn og ráðherrar hafa verið lækkaðir í launum. En almenna stefnan hjá ríkinu hefur verið sú að draga úr launaútgjöldum með margvíslegri hagræðingu og með því að horfa til einstaklingsbundinna ráðningarkjara en ekki hefur verið gengið á gerða kjarasamninga.