138. löggjafarþing — 55. fundur,  20. des. 2009.

kjararáð.

195. mál
[02:22]
Horfa

Frsm. minni hluta efh.- og skattn. (Tryggvi Þór Herbertsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nú er það svo að við höfum á engan hátt fjallað hér um almenna kjarasamninga. Við fjöllum um alveg afmarkaðan hóp sem þessi lög ná til sem eru æðstu stjórnendur ríkisins, ef við getum kallað þá því yfirlætislega nafni. Upphaflegt frumvarp fjallaði um það að frysta laun þessara æðstu stjórnenda ríkisins og eins og hv. þm. Ögmundur Jónasson veit miðast laun á Íslandi við það að farið er frá toppnum og niður, nákvæmlega þannig fer það fram.

Með því að raska þessu jafnvægi fer það niður allan launastigann, þjappar saman launadreifingunni og kemur verst við þá sem eru með millilaun og lág laun. Þetta eru ekki hagfræðikenningar sem eru búnar til í þessum þingsal, síður en svo, þetta er bara hefðbundin vinnumarkaðshagfræði.

Þó svo að mér sé mjög illa við að spyrja þann sem er við mig í andsvari spurninga, þætti mér gaman að vita hvort hv. þm. Ögmundi Jónassyni, sem hefur mikla reynslu í kjarasamningum og á vinnumarkaði, þyki eðlilegt að Alþingi grípi inn í faglegar ákvarðanir stofnana sem hafa verið settar upp í þjóðfélaginu til að eiga við sérstaklega viðkvæm málefni eins og laun ráðherra og þingmanna.