138. löggjafarþing — 56. fundur,  21. des. 2009.

þjóðgarðurinn á Þingvöllum.

93. mál
[09:11]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Álfheiður Ingadóttir) (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Eðlilegt er að fagna þeirri miklu samstöðu sem hefur orðið um þetta frumvarp, ekki aðeins nú á þessu þingi, hjá hv. allsherjarnefnd þar sem fulltrúar allra þingflokka styðja það frumvarp sem hér liggur fyrir öðru sinni en frumvarpið var fyrst flutt af öllum nefndarmönnum í Þingvallanefnd á síðasta ári og endurflutt núna með sama hætti.

Um þjóðgarðinn á Þingvöllum gilda sérstök lög. Hann er friðlýstur helgistaður allra Íslendinga og á samkvæmt þeim lögum að vera svo um ókomna tíð. Það er sjálfsagt og eðlilegt þegar fram hefur komið ósk um að hv. allsherjarnefnd fjalli um málið milli umræðna að svo verði gert en ég vil vekja athygli á því að í Þingvallanefnd er til umræðu spurningin um áheyrnarfulltrúa, ekki aðeins frá Bláskógabyggð heldur ýmsum öðrum aðilum sem eiga hagsmuna að gæta í þjóðgarðinum.